Fyrstu tveir leikir Íslands ættu að öllu eðlilegu að vera þeir viðráðanlegustu fyrir liðið á mótinu, gegn Grænhöfðaeyjum og Kúbu sem hvorugt eru hátt skrifuð.
Eftir leikinn við Kúbu á laugardaginn taka hins vegar við gríðarlega krefjandi leikir, fyrst við Slóveníu á mánudagskvöld og svo í milliriðli við lið á borð við Króatíu og Egyptaland.
Allir leikir Íslands, í riðli og milliriðli, verða í Zagreb og hefur Sérsveitin, stuðningsmannasveit Íslands, nú valið stað fyrir Íslendinga til að hittast á fyrir leiki.
Staðurinn heitir Johann Franck og er stór skemmti- og veitingastaður í miðborg Zagreb.
Sérsveitin, sem svo dyggilega hefur stutt við strákana okkar í gegnum árin, ætlar að spara kraftana til að byrja með og verður ekki með sérstaka upphitun á Johann Franck fyrstu tvo keppnisdagana. Meðlimir Sérsveitarinnar stefna þó, samkvæmt Facebook-síðu hópsins, á að mæta til Zagreb á laugardaginn og beint í höllina til að sjá leikinn við Kúbverja.
Á mánudaginn, fyrir leikinn við Slóvena, verður svo blásið í herlúðra með öflugri upphitun á Johann Franck og má búast við því sama á leikjunum í milliriðli, þegar stór hópur Íslendinga bætist við stuðningsmannasveitina.
Stuðningsmennirnir geta enn ekki orðið sér úti um nýju Adidas-landsliðstreyjurnar sem Ísland spilar í á HM, líkt og kvennalandsliðið á EM í desember, vegna tafa á því að treyjurnar komi til landsins og í sölu.
Ekki hefur verið gefið út hvenær treyjurnar fara í sölu og í versta falli verður það ekki fyrr en eftir að mótinu lýkur.