Erlent

Ráð­leggja blóð­töku fyrir í­búa Jersey

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnin bárust í neysluvatn frá flugvelli eyjarinnar.
Efnin bárust í neysluvatn frá flugvelli eyjarinnar. Getty/Matt Cardy

Íbúum eyjarinnar Jersey hefur verið ráðlagt að gangast undir blóðtöku til að draga úr magni svokallaðra „eilífðarefna“ í blóðrásinni. Rannsóknir hafa sýnt að í sumum íbúum er magnið af efnunum í hættulega mikið.

Jersey er eitt af yfirráðasvæðum Bretlands á Ermasundi en lýtur sjálfstjórn. Neysluvatnið mengaðist í tengslum við notkun eldhamlandi froðu á flugvelli eyjarinnar, en hún inniheldur PFAS og er framleidd af bandaríska fyrirtækinu 3M.

PFSA (e. per- and polyfluorinated alkyl substances) er fjölskylda yfir 10.000 efna sem eiga það meðal annars sameiginlegt að vera notuð vegna eiginleika þeirra til að hrinda frá sér vatni og fitu.

Þau geta safnast fyrir í líkamanum og hafa verið tengd við ónæmisbrest, skjaldkirtilssjúkdóma og nýrna- og þvagblöðrukrabbamein.

„Ég vil þetta bara úr líkamanum. Ég vil ekki fá þvagblöðrukrabbamein,“ hefur Guardian eftir Söruh Simon, íbúa Jersey sem hefur mælst með mikið magn PFSA í blóðinu.

Ráðgjafanefnd sérfræðinga, sem skipuð var af stjórnvöldum, hefur lagt til að íbúum verði boðið upp á blóðtöku, sem felur í sér að hóflegt magn blóðs er tekið úr líkamanum. Blóðið endurnýjar sig í kjölfarið en blóðtakan er endurtekin þar til ástandið er talið viðunandi.

Nefndin hefur einnig lagt til að lyfið cholestyramine verði notað en rannsóknir sýna að það dregur fljótar úr magni PFSA í líkamanum. Það er einnig kostnaðarminna en getur haft aukaverkanir í för með sér.

Efnin fundust fyrst í neysluvatninu rétt fyrir aldamót og í kjölfarið hætti 3M framleiðslu froðunnar. Íbúar á áhrifasvæðum flugvallarins hafa gagnrýnt það harðlega að hafa verið látnir drekka vatnið fram til 2006 en rannsóknir hafa sýnt að 70 prósent íbúa eru með hættulega mikið magn PFSA í blóðinu.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×