Uppgjör og viðtöl: Höttur - Grindavík 63-64 | Troðsla Kane tryggði Grindavík sigur Gunnar Gunnarsson skrifar 16. janúar 2025 21:19 Deandre Kane tryggði Grindvíkingum sigurinn í kvöld. Vísir/Anton Brink Grindavík virðist vera að komast á beinu brautina á ný í úrvaldsdeild karla í körfuknattleik eftir sinn annan sigur í röð, að þessu sinni með einu stigi gegn Hetti á Egilsstöðum 63-64. Leikurinn bauð upp á litla skemmtun fyrir áhorfendur og var ítrekað stopp í seinni hálfleik. Það góða sem hægt er að segja um þennan leik er að hann var hnífjafn, frá upphafi til enda. Liðin fóru ágætlega af stað með þriggja stiga skotum en það hægðist á þeim þegar á leið fyrsta leikhluta. Grindavík var yfir að honum loknum, 20-22. Höttur spilaði ágæta vörn þegar leið á þriðja leikhluta og sigu framúr þannig þeir voru 40-36 yfir í hálfleik. Það er talsverð forusta í ljósi þess að mesti munur á liðunum í kvöld varð sex stig. Grindvíkingar voru í brasi í sókninni, gerðu sig seka um mistök og gekk illa að finna hvern annan. Stigaþurrð í þriðja leikhluta Heimamenn skoruðu ekki stig fyrstu fimm mínúturnar í þriðja leikhluta. Það skipti ekki máli því Grindavík skoraði heldur ekki nema sjö stig á sama tíma. Takturinn datt alveg úr leiknum eftir um fimm mínútna hlé á leiknum. Deandre Kane braut á Gedeon Dimoke sem var að bera boltann upp, sló aftan í hnakkann á honum. Leikmönnum laust saman og dómararnir töluðu góða stund saman áður en þeir fóru í skjáinn og síðan til þjálfaranna til að útskýra hvaða villur yrðu dæmdar. Það var rétt í lokin á þriðja leikhluta sem aftur komst hraði í leikinn og losnaði um bremsurnar. Síðasta karfan kom frá Hetti þegar Justin Roberts keyrði af krafti á Grindavíkurvörnina, kom boltanum niður og líka vítinu sem hann fékk. Höttur var því 49-47 yfir en liðin skoruðu samanlagt 20 stig í leikhlutanum. Lokaséns Hattar Höttur hélt forustunni áfram þar til um þrjár mínútur voru eftir. Lagio Grantsaan, sem spilaði sinn fyrsta leik með Grindavík, kom liðinu yfir 61-62 en Roberts svaraði strax fyrir Hött. Í kjölfarið áttu Grindvíkingar eina af bestu sóknum leiksins, náðu að búa til hlaupabraut fyrir Kane að körfunni sem lyfti sér upp og tróð. Þar með komst Grindavík í 63-64 þegar 2:42 mínútur voru eftir en þetta reyndist síðasta karfa leiksins. Leikurinn átti eftir að verða stopp nokkrum sinnum til viðbótar. Hattarmenn fengu síðustu sóknina, fóru af stað í hana þegar tíu sekúndur voru eftir. Kane braut strax en Hattarmenn fengu bara innkast þegar fjórar sekúndur voru eftir. Kane komst svo inn í sendingu þeirra þannig að aftur var innkast með 3,5 sekúndur eftir. Höttur náði að setja upp skot úr horninu, sem hrökk af hringum, þeir hirtu frákastið og blökuðu boltanum í spjaldið, hringinn og út þannig Grindavík slapp með skrekkinn. Fréttir af liðunum Matej Karlovic lék í kvöld sinn fyrsta leik með Hetti síðan um miðjan október. Hann hefur glímt við meiðsli í bakið. Endurkoma hans er styrkur fyrir Hattarliðið, hann er frábær skotmaður og getur leyst úr erfiðum stöðum. Grindvíkingar fengu í vikunni heimild fyrir hollenskan framherja Lagio Grantsaan. Hann er rúmir tveir metrar og spilaði mest sem miðherji í kvöld. Hann lék síðast í Króatíu. Í staðinn var samningi við Jordan Aboudou rift eftir aðeins fjóra leiki. Atvik leiksins Kane átti ekkert inni hjá Hattarmönnum eftir að hafa lent í útistöðum við þá í fyrri leiknum. Þær voru við Bandaríkjamanninn Corvousier MacCauley, sem er farinn. Í kvöld lenti hann helst í útistöðum við Dimoke, sem var ekki kominn í október. Eftir íþróttamannslegt brotið þustu liðin saman. Fimm mínútur liðu áður en leikurinn fór aftur af stað og enn lengri tími leið áður en einhver taktur komst í hann á ný. Hvað skildi á milli? Liðin spiluðu mjög áþekkan bolta. Þau spiluðu mjög skipulagða vörn þar sem fast var tekist á líkamlega sem kom niður á sóknunum og skemmtanagildi fyrir hinn almenna áhorfenda. Í lokin gat leikurinn dottið hvorum megin sem var og því aðeins lukkan sem skildi á milli. Hverjir stóðu upp úr? Roberts var drjúgur fyrir Hött og leiddi áhlaup liðsins þegar komið var inn í fjórða leikhlutann, þegar liðið virtist ætla að koma sér áfram. Ólafur Ólafsson og DeAndre Kane voru karakterarnir sem börðu sigurinn í gegn. Ólafur átti til dæmis slakt þriggja stiga skot í stöðunni 56-50, en áttaði sig strax á því, hljóp á eftir boltanum inn í teiginn og honum til lukku féll boltinn aftur út í áttina til hans. Það tækifæri greip hann og skoraði. Hann varð enda stigahæstur gestanna með 14 stig. Það segir líka sína sögu að þegar hann var inn á skoraði Grindavík 12 stigum meira, en hann var hvíldur töluvert eftir að hafa fengið sína þriðju villu strax í öðrum leikhluta. Hjá Hetti var Roberts stigahæstur með 20 stig. Jóhann Þór Ólafsson er þjálfari Grindavíkur.vísir/Anton Jóhann Þór: Ljótur sigur en tvö góð stig Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur var þakklátur í leikslok fyrir 63-64 sigur á Hetti á Egilsstöðum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Sigurinn gat fallið með hvoru liðinu sem var en Grindavík komst yfir þegar tvær mínútur og fjörutíu sekúndur voru eftir. Engar körfur voru skoraðar á þeim tíma sem eftir var. „Þetta var hörkuleikur þótt það væru ekki mikil gæði í honum, í það minnsta ekki okkar megin í sóknarlega, við vorum stífir og slakir. En þetta var hörkuleikur með flottri stemmingu á pöllunum sem var gaman að taka þátt í. Þetta var ljótur sigur en tvö góð stig. Við tökum þau út úr þessu. Vörnin var flott gegnumgangandi í leiknum, oft þegar þeir skoruðu vorum við að ofhjálpa og gera einhverjar gloríur sem við erum að að reyna að laga en við getum horft á að varnarleikurinn var nokkuð traustur. Við fráköstuðum líka nokkuð vel. En í lokin er þetta bara ein sókn til eða frá. Þeir fengu tvö góð færi til að taka þetta og við erum heppnir að þetta lendir okkar megin við línuna.“ Ánægður með hvernig dómararnir leystu úr æsingnum Jóhann sagðist ánægður með hvernig dómarar leiksins leystu úr deilum milli DeAndre Kane, leikmanns Grindavíkur og Gedeon Dimoke hjá Hetti, í þriðja leikhluta. Leikurinn var stopp í fimm mínútur meðan dómararnir töluðu saman, skoðuðu upptöku, útdeildu villum og ræddu svo við þjálfarana. „Það var einhver æsingur og stympingar á vellinum en engin illindi. Svo gerði Kiddi (Kristinn Óskarsson, dómari) vel, skýrði út hvernig þeir sáu hlutina og svo framvegis. Þeir eiga skilið hrós hvernig þeir tóku á þessu. Síðan skildu allir sáttir.“ Engin tilgangur í Aboudou Grindvíkingar gerðu breytingu á leikmannahópi sínum í vikunni og fengu hollenska framherjinn Lagio Grantsaan. Hann spilaði tæpan hálftíma, skoraði 9 stig og tók átta fráköst. Í staðinn var Jordan Aboudou sendur heim, eftir aðeins fjóra leiki en hann kom í desember. „Balou gat ekki hreyft sig þannig það var enginn tilgangur í að hafa hann hér í þessu liði okkar. Við duttum niður á þennan gæja og hann lítur vel út til þessa. Hann kom á mánudaginn og virðist töluverð viðbót frá því sem var, enda gat það varla versnað.“ Með sigrinum færðist Grindavík upp í fjórða sæti deildarinnar. Liðið vann sinn annan leik í röð en gekk erfiðlega í síðustu leikjunum fyrir jól. „Eins og ég tönglast á í hverju viðtali þá er hver sigur í þessari deild mikilvægur. Þótt þessi sé ljótur þá tökum við stigunum fagnandi.“ Viðar Örn Hafsteinsson er þjálfari Hattar.vísir/Hulda Margrét Viðar Örn: Eins og allir eigi að vera fyrir utan þriggja stiga línuna og ekki megi fara inn í teig Viðari Erni Hafsteinssyni, þjálfara Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, fannst lið hans sýna framfarir þótt það tapaði 63-64 fyrir Grindavík í miklum baráttuleik á Egilsstöðum í kvöld. Viðar Örn var ánægður með varnarleikinn en fannst möguleikinn á sigri vera tekinn af sínu liði undir lokin með óréttlátum dómi. „Þettta var góður varnarleikur. Mér fannst við spila vörnina mjög þétt og ekki gefa mikið af auðveldum stigum. Grindavík herti líka varnarleik sinn mikið í seinni hálfleik. Þess vegna var lítið skorað.“ Viðar sagði leikinn að mörgu leyti hafa spilast eins og þjálfarar Hattar lögðu upp. „Já, varnarlega. Við viljum skora meira og búa okkur meira til, sérstaklega í þriðja leikhluta en þeir voru þéttir og við áttum erfitt með að brjóta þá niður. Mér fannst frammistaðan betri en að undanförnu, varnarleikurinn var þéttari og það eru hlutir sem við getum byggt á.“ Ósanngjarnt að dæma þrjár sekúndur á Knezevic Viðar Örn vildi lítið segja um atburðarásina sem framkallaði fimm mínútna stopp á leiknum í þriðja leikhluta, þegar leikmenn liðanna æstust heldur eftir brot DeAndre Kane á Gedeon Dimoke. Hann var hins vegar ósáttari við að dæmdar væru þrjár sekúndur á miðherjann Nemanja Knezevic þegar mínúta var eftir. „Undir lok leiksins búum við til færi sem mér fannst ósanngjarnt að fá ekki að klára. Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en fannst karfa tekin af Nemanja þegar dæmdar eru þrjár sekúndur. Þetta er engin „low-post“ leikur ef þetta á að vera svona. Annars staðar er ekki verið að dæma á þetta. Það er eins og Pétur Ingvarsson hafi samið reglurnar, það eigi allir að vera fyrir utan þriggja stiga en það megi ekki pósta upp og fara inn í teig. Ég er ósáttur við þennan dóm á Nemanja sem var að leggja boltann í körfuna.“ Höttur er eftir kvöldið í fallsæti, tveimur stigum á eftir Álftanesi og fjórum stigum frá Val og ÍR í 8. – 9. sæti. „Við höldum bara áfram, byggja á það sem við gerum vel og lagfærum annað. Ef við eigum góðar liðsframmistöður þá detta sigrar með okkur hér og þar. Við tókum skref í rétta átt í dag og það var svekkjandi að klára ekki leik sem mér fannst við gera vel í en við verðum að halda áfram.“ Bónus-deild karla Höttur UMF Grindavík
Grindavík virðist vera að komast á beinu brautina á ný í úrvaldsdeild karla í körfuknattleik eftir sinn annan sigur í röð, að þessu sinni með einu stigi gegn Hetti á Egilsstöðum 63-64. Leikurinn bauð upp á litla skemmtun fyrir áhorfendur og var ítrekað stopp í seinni hálfleik. Það góða sem hægt er að segja um þennan leik er að hann var hnífjafn, frá upphafi til enda. Liðin fóru ágætlega af stað með þriggja stiga skotum en það hægðist á þeim þegar á leið fyrsta leikhluta. Grindavík var yfir að honum loknum, 20-22. Höttur spilaði ágæta vörn þegar leið á þriðja leikhluta og sigu framúr þannig þeir voru 40-36 yfir í hálfleik. Það er talsverð forusta í ljósi þess að mesti munur á liðunum í kvöld varð sex stig. Grindvíkingar voru í brasi í sókninni, gerðu sig seka um mistök og gekk illa að finna hvern annan. Stigaþurrð í þriðja leikhluta Heimamenn skoruðu ekki stig fyrstu fimm mínúturnar í þriðja leikhluta. Það skipti ekki máli því Grindavík skoraði heldur ekki nema sjö stig á sama tíma. Takturinn datt alveg úr leiknum eftir um fimm mínútna hlé á leiknum. Deandre Kane braut á Gedeon Dimoke sem var að bera boltann upp, sló aftan í hnakkann á honum. Leikmönnum laust saman og dómararnir töluðu góða stund saman áður en þeir fóru í skjáinn og síðan til þjálfaranna til að útskýra hvaða villur yrðu dæmdar. Það var rétt í lokin á þriðja leikhluta sem aftur komst hraði í leikinn og losnaði um bremsurnar. Síðasta karfan kom frá Hetti þegar Justin Roberts keyrði af krafti á Grindavíkurvörnina, kom boltanum niður og líka vítinu sem hann fékk. Höttur var því 49-47 yfir en liðin skoruðu samanlagt 20 stig í leikhlutanum. Lokaséns Hattar Höttur hélt forustunni áfram þar til um þrjár mínútur voru eftir. Lagio Grantsaan, sem spilaði sinn fyrsta leik með Grindavík, kom liðinu yfir 61-62 en Roberts svaraði strax fyrir Hött. Í kjölfarið áttu Grindvíkingar eina af bestu sóknum leiksins, náðu að búa til hlaupabraut fyrir Kane að körfunni sem lyfti sér upp og tróð. Þar með komst Grindavík í 63-64 þegar 2:42 mínútur voru eftir en þetta reyndist síðasta karfa leiksins. Leikurinn átti eftir að verða stopp nokkrum sinnum til viðbótar. Hattarmenn fengu síðustu sóknina, fóru af stað í hana þegar tíu sekúndur voru eftir. Kane braut strax en Hattarmenn fengu bara innkast þegar fjórar sekúndur voru eftir. Kane komst svo inn í sendingu þeirra þannig að aftur var innkast með 3,5 sekúndur eftir. Höttur náði að setja upp skot úr horninu, sem hrökk af hringum, þeir hirtu frákastið og blökuðu boltanum í spjaldið, hringinn og út þannig Grindavík slapp með skrekkinn. Fréttir af liðunum Matej Karlovic lék í kvöld sinn fyrsta leik með Hetti síðan um miðjan október. Hann hefur glímt við meiðsli í bakið. Endurkoma hans er styrkur fyrir Hattarliðið, hann er frábær skotmaður og getur leyst úr erfiðum stöðum. Grindvíkingar fengu í vikunni heimild fyrir hollenskan framherja Lagio Grantsaan. Hann er rúmir tveir metrar og spilaði mest sem miðherji í kvöld. Hann lék síðast í Króatíu. Í staðinn var samningi við Jordan Aboudou rift eftir aðeins fjóra leiki. Atvik leiksins Kane átti ekkert inni hjá Hattarmönnum eftir að hafa lent í útistöðum við þá í fyrri leiknum. Þær voru við Bandaríkjamanninn Corvousier MacCauley, sem er farinn. Í kvöld lenti hann helst í útistöðum við Dimoke, sem var ekki kominn í október. Eftir íþróttamannslegt brotið þustu liðin saman. Fimm mínútur liðu áður en leikurinn fór aftur af stað og enn lengri tími leið áður en einhver taktur komst í hann á ný. Hvað skildi á milli? Liðin spiluðu mjög áþekkan bolta. Þau spiluðu mjög skipulagða vörn þar sem fast var tekist á líkamlega sem kom niður á sóknunum og skemmtanagildi fyrir hinn almenna áhorfenda. Í lokin gat leikurinn dottið hvorum megin sem var og því aðeins lukkan sem skildi á milli. Hverjir stóðu upp úr? Roberts var drjúgur fyrir Hött og leiddi áhlaup liðsins þegar komið var inn í fjórða leikhlutann, þegar liðið virtist ætla að koma sér áfram. Ólafur Ólafsson og DeAndre Kane voru karakterarnir sem börðu sigurinn í gegn. Ólafur átti til dæmis slakt þriggja stiga skot í stöðunni 56-50, en áttaði sig strax á því, hljóp á eftir boltanum inn í teiginn og honum til lukku féll boltinn aftur út í áttina til hans. Það tækifæri greip hann og skoraði. Hann varð enda stigahæstur gestanna með 14 stig. Það segir líka sína sögu að þegar hann var inn á skoraði Grindavík 12 stigum meira, en hann var hvíldur töluvert eftir að hafa fengið sína þriðju villu strax í öðrum leikhluta. Hjá Hetti var Roberts stigahæstur með 20 stig. Jóhann Þór Ólafsson er þjálfari Grindavíkur.vísir/Anton Jóhann Þór: Ljótur sigur en tvö góð stig Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur var þakklátur í leikslok fyrir 63-64 sigur á Hetti á Egilsstöðum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Sigurinn gat fallið með hvoru liðinu sem var en Grindavík komst yfir þegar tvær mínútur og fjörutíu sekúndur voru eftir. Engar körfur voru skoraðar á þeim tíma sem eftir var. „Þetta var hörkuleikur þótt það væru ekki mikil gæði í honum, í það minnsta ekki okkar megin í sóknarlega, við vorum stífir og slakir. En þetta var hörkuleikur með flottri stemmingu á pöllunum sem var gaman að taka þátt í. Þetta var ljótur sigur en tvö góð stig. Við tökum þau út úr þessu. Vörnin var flott gegnumgangandi í leiknum, oft þegar þeir skoruðu vorum við að ofhjálpa og gera einhverjar gloríur sem við erum að að reyna að laga en við getum horft á að varnarleikurinn var nokkuð traustur. Við fráköstuðum líka nokkuð vel. En í lokin er þetta bara ein sókn til eða frá. Þeir fengu tvö góð færi til að taka þetta og við erum heppnir að þetta lendir okkar megin við línuna.“ Ánægður með hvernig dómararnir leystu úr æsingnum Jóhann sagðist ánægður með hvernig dómarar leiksins leystu úr deilum milli DeAndre Kane, leikmanns Grindavíkur og Gedeon Dimoke hjá Hetti, í þriðja leikhluta. Leikurinn var stopp í fimm mínútur meðan dómararnir töluðu saman, skoðuðu upptöku, útdeildu villum og ræddu svo við þjálfarana. „Það var einhver æsingur og stympingar á vellinum en engin illindi. Svo gerði Kiddi (Kristinn Óskarsson, dómari) vel, skýrði út hvernig þeir sáu hlutina og svo framvegis. Þeir eiga skilið hrós hvernig þeir tóku á þessu. Síðan skildu allir sáttir.“ Engin tilgangur í Aboudou Grindvíkingar gerðu breytingu á leikmannahópi sínum í vikunni og fengu hollenska framherjinn Lagio Grantsaan. Hann spilaði tæpan hálftíma, skoraði 9 stig og tók átta fráköst. Í staðinn var Jordan Aboudou sendur heim, eftir aðeins fjóra leiki en hann kom í desember. „Balou gat ekki hreyft sig þannig það var enginn tilgangur í að hafa hann hér í þessu liði okkar. Við duttum niður á þennan gæja og hann lítur vel út til þessa. Hann kom á mánudaginn og virðist töluverð viðbót frá því sem var, enda gat það varla versnað.“ Með sigrinum færðist Grindavík upp í fjórða sæti deildarinnar. Liðið vann sinn annan leik í röð en gekk erfiðlega í síðustu leikjunum fyrir jól. „Eins og ég tönglast á í hverju viðtali þá er hver sigur í þessari deild mikilvægur. Þótt þessi sé ljótur þá tökum við stigunum fagnandi.“ Viðar Örn Hafsteinsson er þjálfari Hattar.vísir/Hulda Margrét Viðar Örn: Eins og allir eigi að vera fyrir utan þriggja stiga línuna og ekki megi fara inn í teig Viðari Erni Hafsteinssyni, þjálfara Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, fannst lið hans sýna framfarir þótt það tapaði 63-64 fyrir Grindavík í miklum baráttuleik á Egilsstöðum í kvöld. Viðar Örn var ánægður með varnarleikinn en fannst möguleikinn á sigri vera tekinn af sínu liði undir lokin með óréttlátum dómi. „Þettta var góður varnarleikur. Mér fannst við spila vörnina mjög þétt og ekki gefa mikið af auðveldum stigum. Grindavík herti líka varnarleik sinn mikið í seinni hálfleik. Þess vegna var lítið skorað.“ Viðar sagði leikinn að mörgu leyti hafa spilast eins og þjálfarar Hattar lögðu upp. „Já, varnarlega. Við viljum skora meira og búa okkur meira til, sérstaklega í þriðja leikhluta en þeir voru þéttir og við áttum erfitt með að brjóta þá niður. Mér fannst frammistaðan betri en að undanförnu, varnarleikurinn var þéttari og það eru hlutir sem við getum byggt á.“ Ósanngjarnt að dæma þrjár sekúndur á Knezevic Viðar Örn vildi lítið segja um atburðarásina sem framkallaði fimm mínútna stopp á leiknum í þriðja leikhluta, þegar leikmenn liðanna æstust heldur eftir brot DeAndre Kane á Gedeon Dimoke. Hann var hins vegar ósáttari við að dæmdar væru þrjár sekúndur á miðherjann Nemanja Knezevic þegar mínúta var eftir. „Undir lok leiksins búum við til færi sem mér fannst ósanngjarnt að fá ekki að klára. Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en fannst karfa tekin af Nemanja þegar dæmdar eru þrjár sekúndur. Þetta er engin „low-post“ leikur ef þetta á að vera svona. Annars staðar er ekki verið að dæma á þetta. Það er eins og Pétur Ingvarsson hafi samið reglurnar, það eigi allir að vera fyrir utan þriggja stiga en það megi ekki pósta upp og fara inn í teig. Ég er ósáttur við þennan dóm á Nemanja sem var að leggja boltann í körfuna.“ Höttur er eftir kvöldið í fallsæti, tveimur stigum á eftir Álftanesi og fjórum stigum frá Val og ÍR í 8. – 9. sæti. „Við höldum bara áfram, byggja á það sem við gerum vel og lagfærum annað. Ef við eigum góðar liðsframmistöður þá detta sigrar með okkur hér og þar. Við tókum skref í rétta átt í dag og það var svekkjandi að klára ekki leik sem mér fannst við gera vel í en við verðum að halda áfram.“