Handbolti

„Mjög skemmti­legt og sér­stak­lega á móti Ís­landi“

Sindri Sverrisson skrifar
Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha fékk pabbaknús eftir fyrsta leik sinn á stórmóti í kvöld, gegn Íslandi í Zagreb.
Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha fékk pabbaknús eftir fyrsta leik sinn á stórmóti í kvöld, gegn Íslandi í Zagreb. VÍSIR/VILHELM

„Maður er ennþá að ná að jarðtengja sig aðeins. Maður er dálítið hátt uppi núna, eftir fyrsta leik á HM, en þetta er gott fyrir reynsluna,“ sagði Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha, sem afrekaði það að spila á móti Íslandi á HM í handbolta í kvöld.

Hafsteinn var kallaður inn í landsliðshóp Grænhöfðaeyja rétt fyrir mótið, eftir að hafa verið í stærri æfingahópi liðsins en svo verið sendur heim. Gróttumaðurinn, sem er uppalinn hjá Fjölni en á pabba frá Grænhöfðaeyjum, spilaði ekki mikið í kvöld en kom við sögu undir lokin:

„Já, ég var búinn að hita upp tvisvar sinnum og aðstoðardómarinn var búinn að segja mér að setjast niður tvisvar sinnum. Maður var orðinn dálítið pirraður og þreyttur á þessu. Ég fékk lokamínúturnar en það hefði verið gaman að koma fyrr inn á,“ sagði Hafsteinn við Henry Birgi Gunnarsson í Zagreb í kvöld.

Klippa: Hafsteinn Óli eftir leikinn við Ísland

Hafsteini var vel fagnað af Íslendingum á áhorfendapöllunum í kvöld, þó að hann væri að spila á móti Íslandi:

„Það voru grjótharðir Íslendingar þarna og gaman að heyra í þeim. Það er mjög skemmtilegt að fá að upplifa þetta og sérstaklega á móti Íslandi, og finna þennan stuðning sem stúkan gaf manni,“ sagði Hafsteinn, áður en hann hélt inn í klefa að hlusta á ræðu portúgalska þjálfarans Jorge Rito:

„Hann er ekki ennþá búinn að ræða við okkur, þannig að það kemur í ljós hvað hann segir. Við byrjuðum leikinn hræðilega, misstum boltann og Íslendingar ógeðslega fljótir fram. Við vorum komnir tíu mörkum undir á 0,1. Það var dálítið leiðinlegt og hann tekur örugglega hörkuræðu á okkur núna. Hann gerði það alla vega í hálfleik,“ sagði Hafsteinn léttur.


Tengdar fréttir

Töfræðin á móti Grænhöfðaeyjum: Orri nýtti allt sitt í fyrsta HM-leiknum

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann þrettán marka sigur á Grænhöfðaeyjum, 34-21, í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í handbolta en þrátt fyrir öruggan sigur þá átti íslenska liðið engan stórleik. Liðið kláraði engu að síður verkefnið nokkuð sannfærandi og sigurinn var aldrei í hættu.

„Þeir eru ekki með lélega handboltamenn“

„Það var hrikalega skemmtilegt að byrja þetta mót, og á svona sigri,“ sagði hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson eftir frábæran fyrsta leik sinn á HM í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×