Erlent

Vaktin: Vopna­hlé tekur gildi á Gasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Vopnahléi fagnað á Gasaströndinni.
Vopnahléi fagnað á Gasaströndinni. AP/Abdel Kareem Hana

Vopnahlé tók gildi á Gasaströndinni í morgun eftir tæplega þriggja tíma töf og umfangsmiklar árásir Ísraela á þeim tíma. Til stendur að sleppa þremur gíslum Hamas úr haldi í dag og í kjölfarið munu Ísraelar sleppa níutíu konum og börnum úr haldi þeirra. Fylgst er með vendingum dagsins í vaktinni hér að neðan.

Vopnahlé tók því gildi klukkan 9:15 að íslenskum tíma í morgun, eftir rúmlega fimmtán mánaða átök sem sögð eru hafa kostað að minnsta kosti 46 þúsund Palestínumenn lífið.

Konurnar sem sleppt verður úr haldi Hamas heita Romy Jonin (24), Emily Damary (28) og Doron Shtanbar Khair (31). Til stóð að sleppa þeim um klukkan tvö í dag.

Sjá einnig: Sam­þykktu vopna­hlé en fram­tíðin ó­ljós

  • Fram hefur komið að samkvæmt þessu þriggja fasa samkomulagi myndu Hamas-liðar sleppa fjölda gísla í skiptum fyrir það að Ísraelar sleppi Palestínumönnum úr fangelsi. Í fyrsta fasanum eiga Hamas-liðar að sleppa 33 gíslum yfir sex vikna tímabil og Ísraelar eiga að sleppa fjölmörgum Palestínumönnum úr fangelsum og þar á meðal dæmda hryðjuverkamenn. Þúsundir Palestínumanna eru í haldi Ísraela.
  • Ísraelskir hermenn eiga einnig að hörfa frá byggðum Gasastrandarinnar á þessu tímabili og flæði neyðaraðstoðar á að aukast til muna.
  • Þá hefur flæði neyðaraðstoðar til Gasa aukist til muna í morgun.

Stórar spurningar eru uppi um hvað gerist eftir þetta sex vikna tímabil en viðræður um það eiga að hefjast tveimur vikum eftir að vopnahléið tekur gildi. Verði 33 gíslum sleppt á næstu sex vikum er talið að um hundrað verði áfram í haldi Hamas og að þriðjungur þeirra sé látinn.

Fylgst verður með vendingum dagsins í vaktinni hér að neðan. Sjáist hún ekki gæti þurft að endurhlaða síðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×