Skoðun

Emma Lazarus og Frelsisstyttan

Atli Harðarson skrifar

Á undirstöðu Frelsisstyttunnar í New York er málmplata með sonnettu eftir Emmu Lazarus (1849–1887). Hún var ort árið 1883 þegar skáldkonan safnaði fé til að smíða fótstall undir þessa risastyttu sem Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum. Í þá daga trúðu margir því að Bandaríkin væru athvarf og von þeirra ofsóttu. Ég sá ljóðið þarna eitt hundrað árum síðar þegar ég fór með báti frá Manhattan til Liberty Island. Þá eimdi, að ég held, enn eftir af þessari trú.

Mér varð hugsað til þessa ljóðs eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember og reyndi þá að snúa því á íslensku.

NÝJA RISASTYTTAN

Hann fornar þjóðir minnti á sinn mátt

og málmsins þótta, risi í grískri höfn,

en hér við elfar ós hjá saltri dröfn

mun ólík honum kona er reisir hátt

þann lampa sem af elding funa fær

og fagnar mildum augum hverjum þeim

sem undan kúgun leitar hingað heim,

því hrakta fólki og þreytta móðir kær.

Af vörum hennar heyrist þögult óp:

„Þótt hafið áfram fornu tignarlönd

allt prjál og tilgerð hérna gefast grið

og flóttamanna mergð í stórum hóp

þið megið senda vestur hér að strönd.

Ég lyfti kyndli á loft við gullin hlið.“

Í fyrstu línunum er Frelsisstyttan borin saman við eldri risastyttu sem var reist á grísku eynni Ródos á þriðju öld f. Kr. og var á sínum tíma eitt af sjö undrum veraldar. Risinn á Ródos var að einhverju leyti fyrirmynd Frelsistyttunnar. Að kyndillin geymi eldingu vísar væntanlega til þess að í honum er rafmagnsljós sem var nýlunda þegar ljóðið var ort.

Ég vona að sonnetta Emmu Lazarus gleymist ekki á okkar undarlegu tímum heldur haldi áfram að snerta fólk og hreyfa við því.

Höfundur er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×