Nú er í undirbúningi nýtt deiliskipulag fyrir þetta svæði sunnan við Landspítalann í Fossvogi þar sem gert er ráð fyrir 250 til fjögur hundruð íbúðum. Ef þær áætlanir ná fram að ganga verður minna svigrúm til að auka sjúkrahússtarfsemi í Fossvogi.

Legurýmum mun ekki fjölga með tilkomu nýja Landspítalans sem tekinn verður í gagnið í byrjun næsta áratugar. Það er því ljóst að spítalinn í Fossvogi verður starfræktur um fyrirsjáanlega framtíð.

„Á hinn bóginn höfum við séð mjög öra fólksfjölgun og sívaxandi eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu og þar með sjúkrahúsþjónustu. Þannig að mér þykir einsýnt að við munum þurfa meiri og meiri aðstöðu í framtíðinni. Þá er náttúrlega eðlilegt að hafa augastað á byggingunum í Fossvogi sem þegar eru fyrirliggjandi,“ segir Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans.
Fram til ársins 2040 væri gert ráð fyrir að tiltekin verkefni fari frá Landspítalanum og hann sjái fyrst og fremst um sérhæfða sjúkrahús- og bráðaþjónustu. Engu að síður þurfi land undir þá aðstöðu. Í áætlunum um heilbrigðisþjónustu væri nauðsynlegt að horfa marga áratugi fram í tímann.
„Ég held að það sé ljóst miðað við hvernig staðan er í dag að við höfum brennt okkur illilega á að gera það ekki. Þannig að það viðhorf verður að breytast snarlega. Við þurfum að horfa langt fram í tímann. Þá þurfum við að horfa til landrýmis fyrir sjúkrahúsbyggingar,“ segir forstjórinn.

Spítalinn hefði nýlega hafið samtal við borgina um framtíðarlóðir vestan við spítalann á Hringbraut, þar sem BSÍ og N-1 væru nú, og um lóðina í Fossvogi þar sem borgin er nú að undirbúa skipulag fyrir íbúðabyggð.
„Þá megum við kannski missa af þeim mun minni tíma ef við ætlum að skapa fullnægjandi landrými fyrir sjúkrahúsbyggingar í framtíðinni hérna á höfðuborgarsvæðinu.“ Það væri til að mynda orðið brýnt að byggja yfir geðhleilbrigðisþjónustuna.
„Niðurstaðan var að hún kæmist ekki fyrir svo vel sé á Hringbrautarlóðinni því þar er mjög takmarkað landrými. Þá er meðal annars verið að horfa til lóðarinnar í Fossvogi,“ segir Runólfur Pálsson.