Bíó og sjónvarp

Deila um gervi­greind skekur Hollywood í að­draganda Óskarsins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Adrien Brody þykir líklegur til að fá Óskarsverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki. Einhverjum finnst það ótækt þar sem gervigreind var notuð til að eiga við frammistöðu hans.
Adrien Brody þykir líklegur til að fá Óskarsverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki. Einhverjum finnst það ótækt þar sem gervigreind var notuð til að eiga við frammistöðu hans. EPA

Baráttan í Hollywood er hörð í aðdraganda Óskarsverðlaunanna. Á fimmtudaginn verða tilnefningar til verðlaunanna kynntar, en núna í undanfaranum hefur mikil umræða farið fram um notkun gervigreindar í kvikmyndum, þar á meðal í tveimur kvikmyndum sem þykja líklegar til að verða tilnefndar.

Umræðan hefur verið sérstaklega áberandi í kringum The Brutalist, kvikmynd Brady Corbet sem fjallar um ungverskan gyðing og arkitekt, sem Adrien Brody leikur, sem flýr Ungverjaland eftir seinna stríð. Þá fer Felicity Jones með hlutverk eiginkonu arkitektsins. Þau hafa bæði verið orðuð við Óskarsverðlaunatilnefningar, sérstaklega Brody sem þykir nokkuð líklegur til að hljóta verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki.

Í myndinni tala persónur þeirra beggja ungversku, en gervigreindartækni var beitt til að gera tal þeirra meira sannfærandi.

Blönduðu saman röddum

Klippari myndarinnar, Dávid Jancsó, sem er sjálfur ungverskur greindi frá þessu í viðtali við Red Shark News. Hann sagðist hafa notað tól úkraínska tæknifyrirtækisins Respeecher. Hann gaf tækninni hljóðdæmi af rödd Brody og Jones, en líka sinni eigin til þess að betrumbæta ungverskuna. Gervigreindin blandaði síðan rödd hans við þeirra.

„Stærstur hluti ungversku samræðnanna innhalda hluta af mér að tala. Við pössuðum þó að frammistöðurnar yrðu enn þeirra. Þetta snerist aðallega um að skipta út staf hér og þar. Það var svo mikið af ungverskum díalóg að við þurftum að hraða á ferlinu, annars værum við enn að klippa myndina til.“

Einnig hefur komið í ljós að listamenn sem fengu það hlutverk að handteikna skáldaðan arkitektúr aðalpersónunnar hafi notað gervigreind til að fá innblástur.

Leikararnir í The Brutalist: Felicity Jones, Adrien Brody og Guy Pearce á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.EPA

Í kjölfar þessara fregna tjáðu sig margir um málið og settu spurningarmerki við að einhver gæti hlotið verlaun fyrir leik þar sem gervigreind væri notuð til að styrkja frammistöðuna.

„Það er mín skoðun að þegar frammistöðu er breytt með gervigreind ætti það sjálfkrafa að dæma þann úr leik í svona verðlaunaafhendingu,“ hefur Hollywood Reporter eftir netverja.

Gert af virðingu

Brady Corbet, leikstjóri myndarinnar hefur sent nokkrum fjölmiðlum vestanhafs yfirlýsingu vegna málsins. „Frammistaða Adriens og Felicity eru algjörlega þeirra eigin,“ segir hann.

„Þau unnu mánuðum saman með talþjálfanum Tanera Marshall til að fullkomna hreima sína. Þessi byltingakennda tækni Respeecher var einungis notuð til að betrumbæta það sem sagt var á ungversku, fyrst og fremst til að breyta hljóði ákveðinna sérhljóða og stafa fyrir nákvæmni sakir. Engum enskum díalóg var breytt,“ sagði Corbet.

„Markmiðið var að varðveita frumleika frammistöðu Adriens og Felicity í öðru tungumáli, en ekki að skipta henni út eða breyta þeim. Þetta var gert með mikilli virðingu fyrir starfi leikarans.“

Stjörnurnar í Emelíu Pérez mættu á Cannes-kvikmyndahátíðina: Selena Gomez, Zoe Saldana, og Karla Sofia Gascón.

Gervigreind líka í Emilíu Pérez

Eftir að þessi umræða skapaðist um The Brutalist kom í ljós að grvigreind hafði líka verið notuð við gerð annarrar myndar sem er í Óskarsverðlaunaumræðunni. Það er Emilia Pérez, söngleikur sem fjallar um trans konu sem er höfuðpaur glæpagengis.

Karla Sofía Gascón leikur þennan höfðingja bófaflokksins, en gervigreind var beitt til að bæta söngrödd hennar.

Það þykir líklegt að Gascón verði fyrsta trans konan sem verði tilnefnd sem besta leikkonan í aðalhlutverki.

Nálgunin er öðruvísi í Heretic, hryllingsmynd sem skartar Hugh Grant. Í lok myndarinnar, í sjálfum aðstandendalistanum, má sjá skilaboðin: „Engin skapandi gervigreind var notuð verð gerð þessarar kvikmyndar.“

Notkun gervigreindar í kvikmyndaframleiðslu í Bandaríkjunum hefur verið nokkuð til umræðu síðustu ár. Í hitteðfyrra fóru handritshöfundar í Hollywood í verkfall meðal annars vegna ógnarinnar sem þeir telja að gervigreind stafi að starfi þeirra.

Í samningum sem þeir enduðu á að skrifa undir kom fram að það væri í höndum sjálfra handritshöfundanna að nota gervigreindina við skrif, en ekki yfirmanna þeirra sem gætu þá leyst höfundana af hólmi með gervigreindinni.

Ekki eins og bíll heldur vírus

Kvikmyndagerðarmaðurinn Paul Schrader lagði orð í belg á Facebook á dögunum.

Paul Schrader er búinn að tjá sig um gervigreindina.EPA

„ÉG ER SLEGINN Í ROT. Ég var að biðja ChatGPT um hugmynd fyrir „Paul Schrader kvikmynd“ Og svo Paul Thomas Anderson. Svo Quentin Tarantino. Svo Harmony Korine. Svo Ingmar Bergman. Svo Rossellini. Lang. Scorsese. Murnau. Capra. Ford. Speilberg. Lynch. Allar hugmyndirnar sem ChatGPT fann upp á (á nokkrum sekúndum) voru góðar. Og frumlegar. Og nákvæmar,“ fullyrti Schrader. 

„Hvers vegna ætti handritshöfundar að sitja mánuðum saman að leita að góðri hugmynd þegar gervigreindin getur komið með eina á nokkrum sekúndum?”

Schrader sagði þó við The Guardian að hann væri ekki endilega stuðningsmaður þessarar tækni sem nú ryður sér til rúms. 

„Fólk telur ranglega að gervigreind sé tæknileg framför eins og bíllinn á sínum tíma, en í rauninni er þetta vírus sem fylgir breiðbogaferli.“


Tengdar fréttir

Þéna töluvert þrátt fyrir að vera ekki til

Nýir og öðruvísi áhrifavaldar hafa rutt sér til rúms á samfélagsmiðlum og eru dæmi um að þeir þéni töluvert þrátt fyrir að vera ekki til í alvörunni. Sérfræðingur segir áhrifavaldana eiga sér jákvæðar og neikvæðar hliðar.

Sora-tæknin gerir myndbönd af öllu mögulegu möguleg

Myndband sem sýnir Hollywood-stjörnuna Will Smith borða spaghettí vakti athygli heimsbyggðarinnar í febrúar á síðasta ári. Myndbandið, sem var búið til af gervigreind, þótti bæði fyndið og óhugnanlegt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.