Mál foreldranna var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudaginn í síðustu viku og fer aðalmeðferð fram í næstu viku.
Verkfallsaðgerðir kennara hófust í október á síðasta ári þegar kennarar í níu skólum lögðu niður störf. Þar á meðal í fjórum leikskólum. Það er í leikskólunum Holti í Reykjanesbæ, Drafnarsteini í Reykjavík, Ársölum á Sauðárkróki og Leikskóla Seltjarnarnes. Verkföllin í leikskólunum voru ótímabundin ólíkt hinum skólunum.
Verkfallsaðgerðunum var frestað í lok nóvember eftir að tillaga frá ríkissáttasemjara var samþykkt en verkföllin hefjast á ný ef ekki verður samið fyrir 1. febrúar.
Kjaradeila kennara og ríkis og sveitarfélaga virðist vera í algjörum hnút og langt í að samningar náist. Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til nýs fundar í deilunni og óvíst hvenær það verður gert.
Foreldrar barna í leikskólunum fjórum sjá því fram á að verkföll hefjist á ný. Þeir hafa bent á að það sé óréttlátt að verkfallsaðgerðirnar bitni aðeins á litlum hópi barna.
Þá hefur umboðsmaður barna sagt verkfallið mismuna börnum hvað varðar rétt þeirra til menntunar.
Foreldrar barna á leikskólunum fjórum hafa því stofnað sérstakt félag sem hefur stefnt Kennarasambandinu til fá úr því skorið hvort aðgerðirnar séu í raun löglegar. Aðalmeðferð í málinu verður um miðja næstu viku.
Málið er rekið sem flýtimeðferðarmál sem gerir ráð fyrir að málið gangi hraðar en almennt gerist með mál fyrir dómstólum.
Ekki náðist í Magnús Þór Jónsson formann Kennarasambandsins vegna málsins fyrir fréttir.