Innlent

Þór­dís Kol­brún gefur ekki kost á sér

Árni Sæberg skrifar
Þórdís Kolbrún gefur ekki kost á sér.
Þórdís Kolbrún gefur ekki kost á sér. Vísir/RAX

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér í embætti formanns Sjálfstæðisflokks á komandi landsfundi. Hún sækist ekki heldur eftir varaformannssætinu áfram.

Þetta tilkynnir hún á Facebook. Hún sagði á dögunum að hún hefði ákveðið fyrir tveimur árum að hún myndi gefa kost á sér í formannssætið þegar Bjarni Benediktsson léti af því. Hún hefði ekki tekið nýja ákvörðun í þeim efnum og það yrði stefnubreyting byði hún sig ekki fram til forystu á landsfundi.

Þórdís Kolbrún tók fyrst sæti á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2016, fyrst fyrir Norðvesturkjördæmi og svo fyrir Suðvesturkjördæmi í kosningunum í nóvember síðastliðnum. Hún var ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á árunum 2017 til 2021, dómsmálaráðherra 2019, utanríkisráðherra 2021 til 2023, fjármála- og efnahagsráðherra 2023 til 2024 og loks aftur utanríkisráðherra 2024. Hún tók við varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum árið 2018.

Flokkurinn hafi ekki gott af átökum

Í færslu sinni nú segir hún það öllum ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gott af innanflokksátökum eða hatrömmum flokkadráttum.

„Sjálf valdi ég fylkingu í stjórnmálum fyrir tæpum tuttugu árum, hún er Sjálfstæðisflokkurinn. Ég hef fengið tækifæri til þess að sinna mikilvægum verkefnum og er stolt af því að hafa verið varaformaður síðustu sjö ár. Ég hef notið þess að vinna í einlægni með öllum þeim sem deila með mér sýn.“

Hún sé stolt af því að hafa verið í forystu flokksins með Bjarna Benediktssyni undanfarin sjö ár og hafa átt þátt í þeim árangri sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt þátt í að ná fyrir Ísland.

Af síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2022. Þórdís Kolbrún varaformaður, Bjarni Benediktsson formaður og Vilhjálmur Árnason ritari.Vísir/Vilhelm

Eðlilegt að þeir sem kalli eftir breytingum fái tækifæri

„Á þeim tímamótum sem flokkurinn er á núna er eðlilegt að þær raddir sem kallað hafa hæst á endurnýjun fái tækifæri til þess að reyna sig og flokkurinn fái að velja nýja forystu. Ég sækist því ekki eftir formennsku eða öðru embætti á næsta landsfundi,“ segir Þórdís Kolbrún.

Í pólitískri dægurmálaumræðu geri flestir ráð fyrir því að hún hljóti að vilja verða formaður í Sjálfstæðisflokknum þar sem hún hafi ítrekað sagst telja mig vera færa um að gegna embættinu enda geti formennska í Sjálfstæðisflokknum verið verkfæri til að ná markmiðum fyrir Ísland. 

„En það hefur ekki verið markmið í sjálfu sér; að það sem keyri mann áfram sé að „vinna leikinn“. Það er ekki sami hluturinn. Ég hef ætíð haft metnað til að sinna þeim verkefnum sem mér er treyst fyrir en ekki sérstaklega upptekin af því að ná tilteknum metorðum.“

Hún segist taka þessa ákvörðun með hjartanu og á þessum tímamótum líti hún inn á við og spyrji sig hvernig hún getir best gert gagn.

„Þá er gott að vera umkringd væntumþykju og kærleika fjölskyldu og vina. Börnin mín og eiginmann sem jarðtengja mig, mömmu og pabba, bræður, mágkonur, tengdaforeldra, frænkur, frændur og vini.“

Vísir/Vilhelm

Hlakkar til að verða óbreyttur þingmaður

„Ég mun með stolti gera hvað ég get sem þingmaður í sterku liði undir nýrri forystu. Ég hlakka til að vera óbreyttur þingmaður á eigin forsendum - og hluti af liði. Í öflugum þingflokki með nýju og framúrskarandi fólki sem hlakkar til að spreyta sig og vaxa í nýju hlutverki. Ég hlakka til að vera frjálsari, fá meiri tíma til að lesa bækur og skrifa, rækta það að hafa skynbragð og skilning á því sem er að gerast í kringum okkur, og veldur mér raunverulegum áhyggjum.“

Því miður gruni hana að það sé stærra en einstaka innanlandsmál, hvað þá innanflokksmál. 

„Hér eftir sem hingað til mun ég vanda mig í mínum verkefnum, leggja mig fram um að hlusta, læra og leggja til dómgreind mína og hugmyndir á grundvelli þekkingar og í samræmi við mína eigin samvisku. Þar mun ég aldrei láta nokkuð annað en heildarhagsmuni okkar samfélags ráða. Ég hlakka til þess sem tekur við. Af því að tilgangur lífsins er lífið sjálft og það sem er þess virði að berjast fyrir. Hjartans þakkir fyrir öll fallegu skilaboðin, hvatninguna, stuðninginn og traustið.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Færslu Þórdísar Kolbrúnar má lesa í heild sinni hér að neðan:

Fyrir tæplega tuttugu árum þegar ég hóf þátttöku í Sjálfstæðisflokknum vissi ég lítið um flokkinn og þekkti nánast engan í honum. Þrátt fyrir að hafa ekki alist upp á pólitísku heimili ólst ég upp við sterk gildi sem hafa fylgt mér alla tíð, framan af fremur ómeðvitað. Saman myndar þetta sterkan kompás sem ég er þakklát fyrir og ég passa upp á.

Ég vissi fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur og þar fann ég mínum hugsjónum heimili. Ég fann fyrir ástríðu fyrir því að taka þátt og gera gagn á grundvelli hugsjóna og lífsviðhorfs. Í Sjálfstæðisflokknum fann ég vettvang og verkfæri.

Alltaf hef ég lagt mig fram um að sinna af metnaði og alúð þeim verkefnum sem mér hefur verið treyst fyrir, og ég hef gert það á mínum eigin forsendum. Aldrei hef ég kortlagt minn eigin frama eða fundið sérstakt stolt yfir vegtyllum. Embætti og stöður sem ég hef fengið tímabundið hafa einfaldlega gefið mér tækifæri til þess að sinna mikilvægum verkefnum í samræmi við grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins og mitt eigið lífsviðhorf.

Þau tækifæri hefði ég ekki fengið ef ekki hefði verið fyrir yfirgnæfandi traust almennra flokksmanna sem ég er alla daga þakklát fyrir.

Þótt ég hafi tekið verkefnin mín af mikilli alvöru hef ég aldrei tekið sjálfa mig hátíðlega. Við gegnum öll mismunandi hlutverkum og það er mikilvægt að rugla ekki sjálfum sér saman við þær stöður sem manni er falið að gegna. Ég hef gefið mig alla í verkefnin og elskað hvern einasta dag, þá góðu og þá erfiðu og haft þakklæti og lífsgleði að leiðarljósi.

Uppgjör á síðastliðnum árum bíður betri tíma en þau hafa verið þau lærdómsríkustu sem ég hef lifað og hafa heilt yfir verið árangursrík, gefandi, þroskandi og viðburðarík með eindæmum. Ég var kjörin á þing tólf dögum eftir að ég fæddi dóttur mína og varð ráðherra þegar hún var ekki orðin þriggja mánaða en hún varð átta ára síðasta haust. Mér hefur verið treyst til að hafa forystu um verkefni í samfélaginu sem hafa gert okkur sterkari og ég hef aldrei farið fram á annað en að vera dæmd af verkum mínum og engu öðru.

Ég hef þroskast mikið og hratt og lífsskoðun mín hefur mótast. Ég hef lagt mig fram um að nálgast verkefni mín af auðmýkt þar sem skiptir máli að hlusta ígrundað á ólík sjónarmið, drekka í mig þekkingu og bera virðingu fyrir reynslu og dómgreind annarra, vitandi þó að ábyrgðin er ætíð mín. Þannig hef ég leitast við að þroska dómgreind mína og innsæi þannig að þegar kemur að stórum ákvörðunum geti ég „treyst á magann“ minn, eins og Ólöf Nordal sagði alltaf. Ég hef lagt mig fram um að skilja viðfangsefni mín til botns og vera meðvituð um eigin takmarkanir þannig að sjálfstraust mitt vaxi í hlutfalli við aukna færni. Með reynslu, lærdómi og mikilli vinnu hef ég öðlast traustari undirstöður til þess að vita mjög vel hvað ég er fær um að gera, hvar styrkleikar mínir liggja og vera ég sjálf í stórum verkefnum, innanlands og utan, óhrædd og örugg en auðmjúk gagnvart því hversu mikið í heiminum er handan þess sem maður skilur eða getur haft áhrif á.

Þegar ég hef verið gagnrýnd hef ætíð mátað ákvarðanir mínar og afstöðu við það hvort ég geti verið stolt af starfi mínu þegar árin og áratugirnir líða, en ekki hvort ég geti forðast tímabundna ágjöf eða hvað yrði ofan á í stundar vinsældum.

Í starfi mínu sem utanríkisráðherra lærði ég margt, ekki síst af erlendum starfsystkinum sem ég kynntist mörgum mjög vel. Flest forystufólk landanna í kringum okkur er auðmjúkt gagnvart verkefnum sínum, leggur óskipta orku og vandvirkni í störf sín og að hvers kyns belgingur og yfirborðsstælar koma engum lönd eða strönd þegar málefnin eru alvarleg. Framundan kunna að vera flóknir og vandasamir tímar þar sem reyna mun á íslenska stjórnmálamenn; hvort við höfum skapgerð og þroska til þess að taka flóknar og afdrifaríkar ákvarðanir á yfirvegaðan og vandaðan hátt.

Ég tel nauðsynlegt að við Sjálfstæðisfólk tökum þeirri þróun sem á sér stað í okkar heimshluta alvarlega og séum óumdeilt leiðandi stjórnmálaafl þar. Það höfum við verið frá stofnun flokksins og skulum vera áfram. Sérstaklega nú þegar vegið er að þeirri heimsmynd og reglu sem gerir okkur kleift að vera frjáls, sjálfstæð, rík og sterk. Við Íslendingar erum fá og fullveldi okkar hvílir á stoðum sem geta riðlast. Nú eru því tímar þar sem við þurfum að hyggja að því sem sameinar okkur en gleyma okkur ekki í því sem sundrar.

***

Ég er sannfærð um að það er mikið laust fylgi sem við eigum að sækja, í alla hópa samfélagsins; fólki sem er drifið áfram af metnaði fyrir samfélagi sínu.

Við þurfum að hafa hugrekki til að forgangsraða og fækka verkefnum sem ríkið er að sinna, einmitt til þess að ráða betur við það sem mestu skiptir, öryggisnetið og samfélagsgerðina sem gerir okkur að landi tækifæranna. Í samfélagi þar sem hvert og eitt okkar hefur hlutverk og við spyrjum okkur öll; hvað get ég gert fyrir samfélagið mitt?

Ég vil meiri hlýju í stjórnmálin, enda er hún verkfæri til að gera samfélagið sterkara og betra þar sem fólki líður betur. Við lifum á tímum þar sem tengslarof er alvöru vandamál, þróunin er í þá átt að ekki sé lengur sameiginlegur veruleiki sem bindur lýðræðissamfélög saman og við því þarf að bregðast – og það gerum við með vitsmunalegu samtali, trausti, hlýju og frelsi að vopni.

Ég vil að Ísland sé frjálst, að hér hafi allir jöfn tækifæri, fólk fái að lifa lífinu samkvæmt eigin gildum og að við séum öll frjáls til vera eins og við erum og elska þá sem við elskum.

***

Það er eflaust öllum ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gott af innanflokksátökum eða hatrömmum flokkadráttum. Sjálf valdi ég fylkingu í stjórnmálmum fyrir tæpum tuttugu árum, hún er Sjálfstæðisflokkurinn. Ég hef fengið tækifæri til þess að sinna mikilvægum verkefnum og er stolt af því að hafa verið varaformaður síðustu sjö ár. Ég hef notið þess að vinna í einlægni með öllum þeim sem deila með mér sýn.

Ég er stolt af því að hafa verið í forystu flokksins með Bjarna Benediktssyni undanfarin sjö ár og hafa átt þátt í þeim mikla árangri sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt þátt í að ná fyrir Ísland.

Á þeim tímamótum sem flokkurinn er á núna er eðlilegt að þær raddir sem kallað hafa hæst á endurnýjun fái tækifæri til þess að reyna sig og flokkurinn fái að velja nýja forystu. Ég sækist því ekki eftir formennsku eða öðru embætti á næsta landsfundi.

Í pólitískri dægurmálaumræðu gera flestir ráð fyrir því að ég hljóti að vilja verða formaður í Sjálfstæðisflokknum þar sem ég hef ítrekað sagst telja mig vera færa um að gegna embættinu enda getur formennska í Sjálfstæðisflokknum verið verkfæri til að ná markmiðum fyrir Ísland. En það hefur ekki verið markmið í sjálfu sér; að það sem keyri mann áfram sé að „vinna leikinn“. Það er ekki sami hluturinn. Ég hef ætíð haft metnað til að sinna þeim verkefnum sem mér er treyst fyrir en ekki sérstaklega upptekin af því að ná tilteknum metorðum.

Ég tek þessa ákvörðun með hjartanu og á þessum tímamótum lít ég inn á við og spyr sjálfa mig hvernig ég geti best gert gagn. Þá er gott að vera umkringd væntumþykju og kærleika fjölskyldu og vina. Börnin mín og eiginmann sem jarðtengja mig, mömmu og pabba, bræður, mágkonur, tengdaforeldra, frænkur, frændur og vini.

Ég mun með stolti gera hvað ég get sem þingmaður í sterku liði undir nýrri forystu. Ég hlakka til að vera óbreyttur þingmaður á eigin forsendum - og hluti af liði. Í öflugum þingflokki með nýju og framúrskarandi fólki sem hlakkar til að spreyta sig og vaxa í nýju hlutverki. Ég hlakka til að vera frjálsari, fá meiri tíma til að lesa bækur og skrifa, rækta það að hafa skynbragð og skilning á því sem er að gerast í kringum okkur, og veldur mér raunverulegum áhyggjum.

Því miður grunar mig að það sé allt miklu stærra en einstaka innanlandsmál, hvað þá innanflokksmál.

Hér eftir sem hingað til mun ég vanda mig í mínum verkefnum, leggja mig fram um að hlusta, læra og leggja til dómgreind mína og hugmyndir á grundvelli þekkingar og í samræmi við mína eigin samvisku.

Þar mun ég aldrei láta nokkuð annað en heildarhagsmuni okkar samfélags ráða.

Ég hlakka til þess sem tekur við. Af því að tilgangur lífsins er lífið sjálft og það sem er þess virði að berjast fyrir.

Hjartans þakkir fyrir öll fallegu skilaboðin, hvatninguna, stuðninginn og traustið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×