Þá er Pútín sagður kominn á þá skoðun að markmiðum innrásarinnar í Úkraínu hafi verið náð. Landbrú til Krímskaga hafi verið tryggð og úkraínski herinn veiktur.
Þetta segja heimildarmenn Reuters fréttaveitunnar sem sagðir eru þekkja til stöðunnar í Rússlandi.
Fyrrverandi aðstoðarformaður stjórnar Seðlabanka Rússlands sagði í samtali við blaðamann Reuters að Rússar hefðu áhuga á viðræðum um að binda enda á stríðið í Úkraínu, af efnahagslegum ástæðum. Því lengur sem stríðið héldi áfram, því meiri áhætta væri á mjög slæmum afleiðingum fyrir hagkerfið.
Pútín er sagður hafa hellt sér yfir embættismenn sem halda utan um hagstjórn á fundi með leiðtogum viðskiptalífsins í Rússlandi í desember. Var það eftir að honum var sagt að dregið hefði verulega úr fjárfestingu vegna hárra vaxta.
Sjá einnig: Stýrivextir ná sögulegu hámarki í Rússlandi
Í samræðum við ráðherra sína, sem sýndar voru í sjónvarpi, sagðist Pútín nýlega hafa rætt við viðskiptaleiðtoga um áhrif skorts á fjárfestingu á hagvöxt til langs tíma.
Nokkrir af auðugustu mönnum Rússlands hafa að undanförnu gagnrýnt háa stýrivexti opinberlega.
Fréttir Reuters stemma við fréttaflutning rússneska miðilsins Meduza frá því fyrr í mánuðinum þar sem rætt var við ýmsa aðila tengda Kreml og þeir sögðu þreytu vegna stríðsins hafa aukist töluvert.
Vonir hafi verið bundnar við að stríðið myndi enda í fyrra og að Rússar myndu losna við viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir. Nú séu þær að verða verri og verri og hagkerfi Rússlands hefur beðið hnekki.
Sagði hagkerfið stöðugt
Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, tjáði sig um fréttir Reuters í morgun. Samkvæmt TASS fréttaveitunni, sem er í eigu rússneska ríkisins, viðurkenndi hann vandræði í hagkerfi Rússlands en sagði stöðuna stöðuga. Hann sagði sambærileg vandræði eiga sér stað í fjölda landa heimsins en hagvöxtur væri góður í Rússlandi.
Þá hefur RIA fréttaveitan, sem er einnig í eigu ríkisins, eftir Peskóv að ríkissjóður gæti vel staðið straum af fjárútlátum vegna hernaðar og samfélagsmála.
Hann vildi ekki tjá sig um það hvort Pútín teldi markmiðum innrásarinnar hafa verið náð.
Hótaði frekari aðgerðum
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði í gærkvöldi frekari refsiaðgerðum gegn Rússlandi, semji Pútín ekki um endalok á innrás Rússa í Úkraínu. Í færslu á Truth social, samfélagsmiðli sínum, sagði Trump að hagkerfi Rússlands væri í bullandi vandræðum.
Trump sagðist ætla að gera Pútín og Rússum greiða með því að binda enda á stríðið.