Samninganefndirnar skora á nýkjörna ríkisstjórn að „standa við orð sín“ fyrir þingkosningarnar og binda enda á deilu KÍ við ríki og sveitarfélög.
Ályktun samninganefndanna var samþykkt á fundi nefndanna í dag en þar fór Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, yfir stöðuna í kjaradeilunni.
Í henni segir að skýrar vísbendingar liggi fyrir um kerfislægan og ómálefnalegan mun á launum sérfræðinga í fræðslustarfsemi á opinberum markaði og sérfræðinga á almennum markaði. Þá segir að í samkomulagi frá 2016 liggi fyrir loforð opinberra launagreiðenda um að jafna þennan mun á sex til tíu árum.
„Samninganefndir allra aðildarfélaga hafa lýst því yfir að í yfirstandandi kjaraviðræðum sé algert forgangsatriði að við þetta verði staðið. Þannig verði kjarasamningar allra félaga að innibera skuldbindingu launagreiðenda og áætlun um hvernig jöfnun launa skuli náð á næstu árum. Þessi krafa stendur enn óhögguð.“
Ályktunina í heild má lesa hér að neðan.
Fundur samninganefnda allra aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, haldinn í Borgartúni 30 föstudaginn 24. janúar 2025, samþykkir eftirfarandi ályktun:
Samninganefndir allra aðildarfélaga KÍ lýsa miklum vonbrigðum með stöðu kjaraviðræðna við ríki og sveitarfélög. Skýrar vísbendingar liggja fyrir um kerfislægan og ómálefnalegan mun á launum sérfræðinga í fræðslustarfsemi á opinberum markaði og sérfræðinga á almennum markaði. Í samkomulagi frá 2016 liggja fyrir loforð opinberra launagreiðenda um að jafna þennan mun á 6 til 10 árum. Samninganefndir allra aðildarfélaga hafa lýst því yfir að í yfirstandandi kjaraviðræðum sé algert forgangsatriði að við þetta verði staðið. Þannig verði kjarasamningar allra félaga að innibera skuldbindingu launagreiðenda og áætlun um hvernig jöfnun launa skuli náð á næstu árum. Þessi krafa stendur enn óhögguð.
Viðhorf launagreiðenda í kjaraviðræðunum birtist ekki aðeins sem virðingarleysi við kennarastéttina í heild heldur einnig sem virðingarleysi við hlutverk kennarastéttarinnar sem er að tryggja börnum okkar bestu menntun sem völ er á. Börn eiga rétt á að njóta fagmennsku og stöðugleika á skólagöngu sinni.
Fyrir hönd þeirra tólf þúsund félagsmanna sem saman mynda Kennarasamband Íslands skora samninganefndirnar á nýkjörna ríkisstjórn að standa við orð sín í aðdraganda kosninga og leiða þessa deilu til farsælla lykta.
Nú er tíminn til að fjárfesta í kennurum.