Eftir að hafa spilað sterka vörn í fyrstu fjórum leikjunum á heimsmeistaramótinu fékk Ísland á sig tuttugu mörk í fyrri hálfleik gegn Króatíu í gær.
„Ég held við eigum okkur fáar afsakanir í vörn. Ég held að það hafi ekkert mikið komið okkur á óvart hvað Króatarnir voru að gera. Það kom ekkert á óvart að þessi [Mateo] Maras gat skotið frá 11-12 metrum. Ég held ekki. Það kom okkur ekki á óvart að miðjumaðurinn [Igor] Karacic sé með flæði á boltanum og færi hægri og vinstri. Mér fannst við hafa fáar afsakanir þar,“ sagði Ásgeir Örn í Besta sætinu.
„Það sem kom okkur óvart voru þessi skot, sérstaklega hægra megin fyrir utan. Við héldum ekki kúlinu í konseptinu. Við sáum að markverðirnir voru farnir að giska á horn. Við giskuðum alltaf vitlaust. Við brugðumst ekki neitt sérstaklega vel við þessu. Við eigum okkur eiginlega engar málsbætur með þetta.“
Ásgeir Örn segir að Króatarnir hafi sótt sem minnst á Elvar Örn Jónsson í leiknum en þeim mun meira á Ými Örn Gíslason.
„Við höfum séð Elvar eins og grenjandi ljón inni á vellinum og ég held alveg að hann hafi ætlað sér það. Hann fékk ekki tvær mínútur, ekki að það sé góður mælikvarði. Þeir fóru augljóslega frá honum og hann tók ekki þessi einvígi lengur. Þeir fóru á Ými aftur og aftur og aftur,“ sagði Ásgeir Örn.
Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan og hér fyrir neðan. Þáttinn má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum.