Handbolti

Ó­trú­legt at­vik á HM: Þjálfari Dana hrinti boðflennu sem dreifði rusli

Sindri Sverrisson skrifar
Nikolaj Jacobsen var nóg boðið og hann ýtti hinum óboðna gesti í burtu af vellinum.
Nikolaj Jacobsen var nóg boðið og hann ýtti hinum óboðna gesti í burtu af vellinum. Skjáskot/RÚV

Nikolaj Jacobsen, þjálfari heimsmeistara Danmerkur, reiddist og ýtti í burtu aðgerðasinna sem hljóp inn á völlinn í Boxen í gær, þegar Danir og Tékkar áttust við á HM í handbolta. Maðurinn dreifði konfettí um gólfið og sameinuðust leikmenn og starfsmenn um að hreinsa til eftir hann.

Þessi stórfurðulega uppákoma varð í upphafi seinni hálfleiks, þegar Danir voru 13-10 yfir í leik sem þeir unnu líkt og aðra leiki á HM, 28-22. Þeir voru þegar komnir áfram í 8-liða úrslit og mæta þar líklega Brasilíu.

Þegar boðflennan hljóp inn á völlinn virtist það taka dágóða stund fyrir gæslumenn á vellinum að bregðast við. Jacobsen leiddist þófið og ákvað að taka málin í eigin hendur og hóf að ýta manninum í burtu, við mikinn fögnuð áhorfenda eins og sjá má.

Einn af þeim sem stukku þá til, til að stöðva Jacobsen, var Hlynur Leifsson sem var eftirlitsmaður IHF í Herning í gær.

Eftir þetta gekk hratt að losna við boðflennuna en hins vegar fór langur tími í að hreinsa völlinn eftir hann. Leikmenn liðanna létu ekki sitt eftir liggja í því, og voru handklæði og fleira nýtt til að sópa í burtu öllu konfettíinu svo hægt væri að halda leik áfram.

Jacobsen var að sjálfsögðu spurður út í þessa uppákomu eftir leik, og viðbrögð sín sem féllu svo vel í kramið hjá áhorfendum:

„Núna er hann búinn að fá næga athygli. Það var ekkert að gerast svo ég hugsaði með mér að það þyrfti að koma honum út. Núna þurfum við að komast heim og pakka svo við getum komið okkur til Noregs,“ sagði Jacobsen en Danir spila í Bærum í 8-liða úrslitum, sem og í undanúrslitum og úrslitum ef þeir komast þangað.

„Það hefur gerst áður að menn séu að hlaupa svona inn á völlinn, en sem betur fer er það sjaldan,“ sagði Jacobsen sem ætlar sér að stýra Dönum til fjórða heimsmeistaratitilsins í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×