Körfubolti

Booker ekki valinn og vill breyta stjörnuleiknum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Devin Booker hefur verið einn af betri leikmönnum deildarinnar um árabil. 
Devin Booker hefur verið einn af betri leikmönnum deildarinnar um árabil.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Devin Booker var ekki valinn til að taka þátt í stjörnuleik NBA deildarinnar. Hann telur tímabært að stækka stjörnuleikinn þannig að bæði stjörnuliðin megi hafa fimmtán leikmenn, líkt og liðum í deildinni hefur verið leyft undanfarin fjögur tímabil.

Reglunni var breytt árið 2020, lið hafa síðan þá mátt skrá fimmtán leikmenn á skýrslu í stað aðeins tólf. Reglan var hins vegar ekki uppfærð varðandi stjörnuleikinn og aðeins tólf leikmenn verða í hvoru liði. 

„Ég held að það séu nógu margir hæfileikaríkir leikmenn sem eiga það skilið [að taka þátt í leiknum],“ sagði Booker á blaðamannafundi í gær.

Hann hefur töluvert til síns máls, því sjö af tuttugu stigahæstu (að meðaltali) leikmönnum deildarinnar voru ekki valdir. Þá var frákastakóngurinn Domantas Sabonis og stoðsendingameistarinn Trae Young ekki heldur valdir.

Sömuleiðis ríkir leynd yfir því hvert vægi áhorfenda atkvæða er þegar leikmenn eru valdir.

LaMelo Ball var til dæmis ekki valinn til að taka þátt í leiknum þrátt fyrir að vera langefstur í áhorfenda kosningunni. Hann er sá fyrsti frá upphafi sem lendir í því.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×