Upp­gjörið: Króatía - Dan­mörk 26-32 | Danir heims­meistarar fjórða sinn í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dönsku leikmennirnir fagna í leikslok í Unity Arena í Osló.
Dönsku leikmennirnir fagna í leikslok í Unity Arena í Osló. getty/Sanjin Strukic

Danska karlalandsliðið í handbolta varð í kvöld heimsmeistari fjórða sinn í röð eftir öruggan sigur á Króatíu, 26-32. Strákarnir hans Dags Sigurðssonar urðu að gera sér silfrið að góðu.

Sigur Dana var mjög öruggur en þeir leiddu allan tímann og komust mest tíu mörkum yfir. Staðan í hálfleik var 12-16, danska liðinu í vil. Það stakk svo af í byrjun seinni hálfleiks.

Danir voru langbesta liðið á HM og unnu alla níu leiki sína með samtals 113 mörk, eða 12,6 mörkum að meðaltali í leik. Danmörk hefur unnið 34 af síðustu 36 leikjum sínum á HM en síðasta tapið kom fyrir átta árum.

Króatar, undir stjórn Dags, komu mörgum á óvart með því að komast í úrslit á mótinu. Þeir voru hins vegar ekki á heimavelli í kvöld eins og í fyrstu átta leikjum sínum en líklega hefði það engu breytt. Þetta danska lið virðist einfaldlega óstöðvandi.

Dagur Sigurðsson hefur unnið gull, silfur og brons á stórmótum (HM, EM og Ólympíuleikum) á ferli sínum sem landsliðsþjálfari.getty/Sanjin Strukic

Danir eru með besta leikmann og besta markvörð í heimi og þeir voru báðir frábærir í kvöld. Mathias Gidsel skoraði tíu mörk úr ellefu skotum þrátt fyrir að vera tví-, þrí og jafnvel fjórdekkaður. Og Emil Nielsen varði nítján skot, eða 46 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Á meðan vörðu króatísku markverðirnir, Dominik Kuzmanovic og Ivan Pesic, aðeins tíu skot (24 prósent).

Króatar mættu ákveðnir til leiks og spiluðu ágætis vörn í fyrri hálfleik. Sóknir þeirra strönduðu hins vegar jafnan á dönsku vörninni og Nielsen byrjaði af krafti í markinu. Króatía skoraði eitt mark á fyrstu tíu mínútunum en missti Danmörku samt ekki frá sér.

Gidsel skoraði ekki sitt fyrsta mark fyrr en á 13. mínútu og þegar ellefu mínútur voru til fyrri hálfleiks minnkaði Tin Lucin muninn í eitt mark, 7-8. Króatar fengu svo tækifæri til að jafna en Nielsen varði frá Marin Stipic úr dauðafæri. Í næstu sókn Dana fékk Marko Mamic svo rautt spjald fyrir brot á Rasmusi Lauge. Króatar gengu hart fram í leiknum og fengu átta brottvísanir, þar af þrjár fyrir mótmæli. 

Danir skoruðu fimm af næstu sjö mörkum og komust fjórum mörkum yfir, 9-13. Sami munur var á liðunum í hálfleik, 12-16. Gidsel og Emil Jakobsen voru báðir með fimm mörk hjá danska liðinu en hjá því króatíska bar Ivan Martinovic þyngstu byrðarnar í sókninni. Hann skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik.

Mathias Gidsel varð markakóngur á HM með 74 mörk.getty/Sanjin Strukic

Dönsku heimsmeistararnir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklu afli, skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum hans og náðu sjö marka forskoti, 13-20. Króatía minnkaði muninn í 14-20 en Danmörk skoraði næstu fjögur mörk og komst tíu mörkum yfir, 14-24, þegar nítján mínútur voru eftir.

Þarna var öllum ljóst hvernig leikurinn myndi fara. Króatíski sóknarleikurinn lagaðist aðeins eftir þetta og fleiri en Martinovic komu með eitthvað að borðinu. Mario Sostaric skoraði til að mynda fimm mörk í seinni hálfleik og Luka Lovre Kalinic átti ágæta spretti. En strákarnir hans Dags náðu aldrei að minnka muninn nema í fimm mörk, 23-28.

Nikolaj Jacobsen, þjálfari Dana, spilaði á sínu sterkasta liði nær allt til loka og heimsmeistararnir gáfu ekkert eftir. Emil Madsen kom þeim í 25-32 en Danir leyfðu svo Domagoj Duvnjak, fyrirliða Króata, að skora lokamark leiksins í sínum síðasta leik á stórmóti. Lokatölur 26-32, frábæru dönsku liði í vil.

Domagoj Duvnjak kvaddi króatíska landsliðið í leikslok.getty/Sanjin Strukic

Duvnjak lék í nítján ár með króatíska landsliðinu en tókst aldrei að vinna gull með því. Silfurverðlaunin urðu fimm og bronsverðlaunin fjögur.

Úrslitin í dag svíða eflaust fyrir hann og Dag en Króatar mættu einfaldlega ofjörlum sínum. Langbesta liðinu á HM og líklega besta handboltaliði allra tíma.

Jacobsen hefur stýrt Dönum á tíu stórmótum. Á þeim hefur liðið unnið fimm gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Danski hópurinn er á góðum aldri og Jacobsen er samningsbundinn danska handknattleikssambandinu til 2030 svo það er ekkert sem bendir til þess að sigurgöngunni ljúki í bráð. Sem er frekar óhugnanlegt fyrir andstæðinga dönsku heims- og Ólympíumeistaranna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira