Erlent

Rubio fundaði með Mulino og í­trekaði hótanir Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mikilla mótmæla í tengslum við heimsókn Rubio.
Efnt var til mikilla mótmæla í tengslum við heimsókn Rubio. Getty/Enea Lebrun

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti fund með José Raúl Mulino, forseta Panama, í gær. Á fundinum ítrekaði Rubio hótanir Donald Trump Bandaríkjaforseta um að Bandaríkjamenn hefðu, að óbreyttu, í hyggju að taka yfir Panamaskurðinn.

Utanríkisráðherrann sagði það afstöðu Bandaríkjanna að áhrif Kínverja á svæðinu væru of mikil og ef ekki yrði tafarlaus breyting á myndu Bandaríkjamenn grípa til aðgerða. Ástandið væri óásættanlegt.

Mulino ítrekaði á móti að yfirráð yfir skurðinum væru ekki til umræðu; skurðurinn væri undir stjórn Panama og yrði áfram.

Forsetinn sagði að fundurinn hefði verið á kurteisislegum nótum og bauðst meðal annars til að aðstoða yfirvöld í Bandaríkjunum við að koma ólöglegum innflytjendum aftur til síns heima, ef Bandaríkjamenn greiddu fyrir það.

Þá sagði hann að stjórnvöld í Panama hefðu ekki í hyggju að halda áfram þátttöku í svokallaðri „belt and road“ áætlun Kínverja. Áætlunin gengur út á gríðarlega uppbyggingu innviða til að efla efnahagsleg áhrif Kínverja um allan heim.

Mikil mótmæli brutust út í Panama í tengslum við heimsókn Rubio en heimamenn eru síður en svo ánægðir með hótanir Bandaríkjamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×