Handbolti

Dagur heldur á­fram: „Fannst ég endur­fæddur“

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson gerði það sem til var ætlast með króatíska liðið - vann verðlaun á stórmóti.
Dagur Sigurðsson gerði það sem til var ætlast með króatíska liðið - vann verðlaun á stórmóti. Getty/Soeren Stache

„Það verður að hrósa sérstaklega þjálfaranum Degi Sigurðssyni,“ segir í grein króatíska miðilsins 24 Sata þar sem Dagur staðfestir að hann verði áfram þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta nú þegar HM er lokið.

Króatar töpuðu úrslitaleiknum gegn Dönum í gær en enduðu með silfurverðlaun - fyrstu verðlaun sín á stórmóti síðan á EM árið 2016.

Degi tókst því það sem vonast var til þegar hann var ráðinn fyrir tæpu ári síðan. „Hann var á bekknum á erfiðum augnablikum og mátti þola mikið af gagnrýni og efasemdaröddum, en kom liðinu okkar í gang og skráði sig að eilífu í sögubækur króatísks handbolta,“ segir í grein 24 Sata.

Sjálfur sagði Dagur eftir úrslitaleikinn í gær, samkvæmt miðlinum: „Auðvitað eru úrslitin svolítil vonbrigði. Við vildum halda í við þá aðeins lengur en þetta var erfiður slagur alveg til enda. Við reyndum allt sem við gátum en lukkan var ekki með okkur. Ég hefði viljað sjá hvernig þessi leikur hefði spilast í Zagreb, það hefði verið áhugavert,“ sagði Dagur.

Dagur Sigurðsson fagnar með leikmönnum sínum eftir sigurinn góða á Frökkum í undanúrslitum HM.Getty/Slavko Midzor

„Ég óska Danmörku til hamingju. Þeir eru með ótrúlegt lið eins og tölurnar sýna. En okkur mun takast þetta næst,“ sagði Dagur við RTL.

Hann verður hylltur líkt og allt króatíska liðið í miðborg Zagreb klukkan fjögur í dag enda Króatar í skýjunum eftir mótið.

„Þetta var draumur sem rættist, svo sannarlega. Ég kom hingað til að fá aftur tilfinningarnar og orkuna sem ég hef upplifað. Mér fannst ég endurfæddur, sérstaklega í leikjunum í Zagreb. Ég er mjög ánægður,“ sagði Dagur.

„Ég kom til að hjálpa liðinu að komast aftur á toppinn. Það tókst næstum því. Við erum alveg við toppinn. Núna setjumst við niður og gerum ný plön, svo að við verðum alveg tilbúnir. Við verðum að einbeita okkur að því að vera með topplið á næstu Ólympíuleikum,“ sagði Dagur og var því spurður hvort að hann yrði áfram þjálfari Króatíu:

„Ég verð áfram þjálfari, það er ekki spurning. Mér líður vel, mér finnst ég velkominn, og ég elska liðið og andann í hópnum,“ sagði Dagur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×