Erlent

„Versta fjöldaskotárás sem hefur verið gerð í okkar landi“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Ulf Kristersson er forsætisráðherra Svíþjóðar.
Ulf Kristersson er forsætisráðherra Svíþjóðar. EPA/OLIVIER MATTHYS

Að minnsta kosti tíu manns eru látnir eftir skotárás í skóla í bænum Örebro í Svíþjóð í dag. Árásarmaðurinn er meðal látna.

Um hádegi í dag skaut maður á fertugsaldri úr hálfsjálfvirku skotvopni við Campus Risbergska-skólann í Örebro. Í skólanum fer fram fullorðinsfræðsla en var hann áður framhaldsskóli. 

Að minnsta kosti tíu eru látnir og margir særðir eftir árásina. Árásarmaðurinn er talinn vera meðal þeirra látnu.

Á blaðamannafundi sögðu bæði Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, árásina vera verstu fjöldaskotárás sem gerst hefur í Svíþjóð.

„Það er með mikilli sorg að við höfum fengið þær fréttir frá lögreglunni að um tíu manns hafi látið lífið og nokkrir særst í skotárás í skóla í Örebro. Það sem einfaldlega getur ekki gerst hefur nú gerst,“ sagði Kristersson í umfjöllun SVT.

Örebro er í um tvö hundruð kílómetra fjarlægð frá Stokkhólmi.Grafík/Hjalti

Karl Gústaf XVI Svíakonungur sendi einnig samúðarkveðjur. 

„Við sendum okkar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina þeirra látnu. Við hugsum líka til þeirra sem slösuðust og fjölskyldu þeirra, auk annarra sem urðu fyrir áhrif,“ segir í tilkynningu.

Mikill viðbúnaður lögreglu var á staðnum þar sem sex skólar og einn veitingastaður í nágrenninu voru rýmd.

Fjallað var um árásina í kvöldfréttum Stöðvar 2. Íslenskur skólastjóri var meðal þeirra sem flúðu skotárásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×