Veður versnar hratt suðvestanlands upp úr hádegi, þar sem appelsínugular storm- og rigningarviðvaranir taka gildi klukkan tvö. Viðaranir tínast svo inn í öðrum landshlutum skömmu síðar og nær allt landið verður orðið appelsínugult klukkan fimm. Höfuðborgarsvæðið er þar ekki undanskilið og foreldrar skólabarna eru hvattir til að fylgjast vel með stöðunni síðdegis, jafnvel sækja börn sín í skóla eða frístund eftir því sem við á.
Hvessir ógurlega
Miklar raskanir eru á flugi í dag, nær öllum flugferðum til og frá landinu eftir klukkan eitt hefur verið aflýst, samkvæmt vef Isavia. Þá eru vegir um allt land á óvissustigi í dag, sem þýðir að þeim getur verið lokað með skömmum fyrirvara. Óvissustig tekur gildi á Reykjanesbraut, Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði ýmist nú klukkan tólf eða eitt. Þá hefur Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði verið lokað. Einar Sveinbjörnsson er veðurfræðingur hjá Vegagerðinni.
„Veðrið skellur á með dálitlum látum, eftir hádegi, sérstaklega milli tvö og fjögur, kemur að okkur af fullum þunga og fullum styrk. Það byrjar með því að það snjóar á fjallvegum og verður svo hált í kjölfarið þannig að það er erfitt við að eiga, eins og til dæmis á Hellisheiðinni,“ segir Einar.
„Þegar þetta gerist svona þá hvessir ógurlega á landinu, eiginlega um land allt og það versnar mjög hratt á landinu. Það eru þessar hviður, þessir sviptivindar, sem verða þegar loftið er þetta hlýtt. Þetta eru svona 20, 25 metrar á sekúndu í jöfnum vindi nokkuð víða. Við eigum eftir að sjá hviður sem eru um og yfir fimmtíu metra á sekúndu, staðbundið á norðurlandi og ekki síður fyrir austan.“
Hafi varann á
Einar ræður fólki frá því að leggja í langferðir.
„Menn hafi varann á sér nú síðdegis og verði búnir að koma börnum og sjálfum sér í hús.“
Viðvaranir byrja smám saman að detta úr gildi sunnan, vestan, norðan og norðaustanlands upp úr miðnætti en koma aftur inn með morgninum.
„Síðan kemur ný lægð, heldur minni en viðheldur vinstrengnum um austanvert landið, og verður líka mjög slæmt hér suðvestanlands sérstaklega milli átta og tólf í fyrramálið,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.