Upp­gjör: Stelpurnar stóðu í Tyrkjum fyrir framan troð­fulla höll

Kári Mímisson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir átti frábæran leik í kvöld og skoraði 29 stig.
Sara Rún Hinriksdóttir átti frábæran leik í kvöld og skoraði 29 stig. FIBA Basketball

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta lék við Tyrki í undankeppni EuroBasket 2025. Leikið var í Izmit í Tyrkland fyrir framan fimm þúsund áhorfendur. Eftir afar spennandi og góðan leik þá þurftu okkar konur að láta í minni pokann en lokatölur í Izmit 83-76 fyrir Tyrkland þar sem úrslitin réðust á lokamínútunum.

Fyrir leikinn mátti reikna með erfiðum leik fyrir okkar stelpur. Tyrkneska liðið er númer 17 á heimslista FIBA og hefur að skipa virkilega sterkum leikmönnum. Ísland byrjaði leikinn á því að skora fyrstu stig leiksins en eftir það tóku þær tyrknesku við og létu okkar konur heldur betur finna fyrir því en mikill hæðarmunur er á liðunum. 

Á meðan hvert frákastið endaði í höndum heimakvenna þá börðust þær íslensku heldur betur fyrir sínu og munurinn í hálfleik aðeins fimm stig, 38-33. Þær Daniella Rodriguez og Sara Rún Hinriksdóttir voru atkvæðamestar í fyrri hálfleik og skoruðu hvor 10 stig. Munurinn á liðunum var helst í fráköstunum en á meðan Ísland var með 16 fráköst þá var Tyrkland með 34.

Seinni hálfleikurinn var áfram jafn og spennandi. Tyrkir leiddu á meðan Ísland barðist vel og tókst að halda sér í leiknum. Mest náðu þær tyrknesku að komast í 11 stiga forystu en undir lok þriðja leikhluta átti íslenska liðið mjög góðan sprett og tókst að minnka muninn niður í tvö stig og fékk í raun tækifæri til að komast yfir þegar Anna Ingunn fór í þriggja stiga skot sem geigaði.

Loka leikhlutinn var svo æsispennandi. Þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af leiknum tókst Íslandi aftur að minnka muninn niður í tvö stig þegar Sara Rún skoraði eftir laglegt spil. Tyrkirnir fengu tvö vítaskot í næstu sókn en settu bara annað niður. Ísland hélt því til sóknar með möguleika á að jafna leikinn en skot Önnu Ingunnar fór ekki niður í þetta skiptið heldur og strax í næstu sókn settu þær tyrknesku niður erfitt þriggja stiga skot. Eftir þetta tókst Íslandi aldrei að gera aðra atlögu að sigrinum og lokatölur í Izmit 83-76 eins og áður segir.

Atvik leiksins

Það verður að vera þessar sekúndur þar sem við gátum jafnað en á meðan okkar þristur fór ekki niður þá tekst þeim að skora úr erfiðu þriggja stiga skoti strax í kjölfarið. Ég hugsa að lokamínúturnar hefðu þróast öðruvísi ef þetta hefði verið á hinn bóginn.

Stjörnur og skúrkar

Eftir svona frammistöðu er auðvitað enginn skúrkur. Sara Rún Hinriksdóttir var maður leiksins. Þvílík frammistaða segi ég nú bara. 29 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Næst á eftir henni kom Danielle Rodriguez með 17 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar.

Dómararnir

Með þetta í teskeið og ekki hægt að kenna þeim um neitt í dag.

Stemning og umgjörð

Það var uppselt í Şehit Polis Recep Topaloğlu höllinni í Izmit þar sem 5000 Tyrkir þögðu þegar Ísland virtist vera að stela þessu. Stelpurnar létu tyrkneska áhorfendur ekkert á sig fá sem eru nú yfirleitt þekktir fyrir að vera erfiðir heim að sækja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira