Körfubolti

Að frum­kvæði Péturs sem leiðir hans og Kefla­víkur skildu

Aron Guðmundsson skrifar
Pétur Ingvarsson er ekki lengur þjálfari karlaliðs Keflavíkur í körfubolta.
Pétur Ingvarsson er ekki lengur þjálfari karlaliðs Keflavíkur í körfubolta. Vísir/Hulda Margrét

Það var að frum­kvæði þjálfarins Péturs Ingvars­sonar að leiðir hans og liðs Kefla­víkur í körfu­bolta skildu eftir ein­læg samtöl hans og stjórnar að sögn fram­kvæmda­stjóra körfu­knatt­leiks­deildar Kefla­víkur. Leit að nýjum þjálfara hefst nú en sá verður ekki kominn í brúnna fyrir næsta leik liðsins á fimmtu­daginn kemur.

Það hefur lítið gengið hjá Keflavík í Bónus deildinni undanfarnar vikur og finnur liðið sig nú í 9.sæti deildarinnar þegar sextán umferðir hafa verið leiknar og sex leikir eftir af deildarkeppninni. Verði það raunin eftir leikina sex er ljóst að Keflavík verður ekki með í úrslitakeppninni. Tap gegn KR í síðustu viku reyndist kornið sem fyllti mælinn.

„Eins og flestir vita hefur árangurinn hjá liðinu í síðustu leiki, og í raun og veru eftir áramót, ekki verið eins og við vildum. Hvorki stjórn né Pétur. Í samtölum núna um helgina fundum við bara að þetta væri niðurstaðan,“ segir Kristján Helgi Jóhannsson, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Keflavíkur í samtali við Vísi. Við áttum bara mjög góð samtöl við Pétur, einlæg samtöl. Þetta var því niðurstaðan sem við ákváðum að tilkynna leikmannahópnum í gær og í kjölfarið á okkar samfélagsmiðlum. Þetta var allt gert í mesta bróðerni í raun og veru.“

En er hægt að segja sem svo að annar hvor aðilinn hafi tekið fyrsta skrefið í átt að þessu? Er það af ykkar frumkvæði sem þið eigið þessi samtöl?

„Í raun og veru átti Pétur fyrsta skrefið í því. Í kjölfarið sest stjórn deildarinnar niður saman og ræðir málin, svo ræðum við saman aftur. Eins og kemur fram í tilkynningunni er þetta algjörlega sameiginleg niðurstaða en frumkvæðið kom svolítið frá Pétri. Hann var auðvitað sjálfur ekki ánægður með það hvernig hlutirnir höfðu gengið og því fór sem fór.“

Flækti ekki málið að synir Péturs spili með liðinu

Var þetta ekki einkar flókin staða að ráða úr með það í huga að synir hans spila með liðinu?

„Nei. Fyrir fram hefðu kannski einhverjir haldið það en það einhvern veginn spilaði ekkert inn í þetta. Þetta eru fullorðnir drengir, Hilmar búinn að vera í atvinnumennski og Sigurður frábær hjá okkur. Þeir vissu það fyrir að þetta er þeirra heimili í dag og það breytist ekkert. Ekki neitt. Ég átti ágætis spjall við Hilmar í gær og á svo eftir að heyra í Sigurði. Þetta breytir engu fyrir þá. Þeir ganga inn á æfingar og inn í leiki algjörlega eins og áður. Ég hef ekki áhyggjur af því.“

Sigurður Pétursson er einn tveggja sona Péturs, fráfarandi þjálfara, sem spilar með Keflavík.Vísir/Hulda Margrét

Nýkomnir úr þjálfaraleit

Magnús Þór Gunnarson stýrir næsta leik liðsins á fimmtudaginn gegn ÍR. En væntanlega eru þið að fara hefja þjálfaraleit. Hvenær viljið þið vera búnir að ganga frá þjálfaramálum?

„Fókusinn í dag er allur á þessum gríðarlega mikilvæga leik gegn ÍR á fimmtudaginn. Magnús Þór mun stýra þeim leik og Gunnar Einarsson verður honum til aðstoðar. Við þurfum bara aðeins tíma til að ná utan um hlutina, taka utan um hópinn. Fókusinn er á verkefninu á fimmtudaginn en við skoðum öll þjálfaramál gaumgæfilega. Ætlum ekki að flýta okkur í einu eða neinu. Það er auðvitað ekki mikið í boði. Við erum búnir að vera í þessu verkefni með kvennaliðið áður og vitum hversu verðugt það er. En ég hef engar áhyggjur, við erum með góðan mann. Magnús Þór er algjörlega tilbúinn að stíga inn og aðstoða okkur í þessu. Vonandi skýrist eitthvað á næstu dögum en það verður ekkert fyrir leikinn á fimmtudaginn. Hann er í forgangi.“

En eru einhver nöfn á blaði hjá ykkur?

„Ég ætla ekki að segja að við séum með nöfn á blaði en það eru auðvitað nöfn sem koma upp og Magnús Þór er einn af þeim. Ég held það sé bara ekki tímabært að ræða það.“

Fókusinn á að komast í úrslitakeppni

Keflavík er í 9.sæti deildarinnar um þessar mundir. Hvernig horfið þið á restina af tímabilinu?

„Við erum auðvitað í undanúrslitum í bikarnum og þar ætlum við að fara alla leið, verja bikarinn. Markmiðið upp úr þessu er auðvitað að komast í úrslitakeppnina. Það eru erfiðir leikir eftir, tólf stig í pottinum, og það er verðugt verkefni. Tökum einn leik í einu, það eru tveir leikir eftir fram að landsleikjahlé, fókusinn er bara á því. Að komast í úrslitakeppni númer eitt, tvö og þrjú.“

En hvað skilur Pétur eftir sig hjá félaginu? 

„Það sem kom fram í tilkynningunni snerti bara lítillega á því hvernig Pétur kom inn í félagið. Hann kom með virkilega ferskar hugmyndir, opnaði augun fyrir stjórnarmönnum sem voru kannski búnir að sitja svolítið lengi. Hann kom bara með mikla fagmennsku, skilur eftir sig mikið. Ég vona bara að leiðir okkar liggi saman aftur í framtíðinni. Það sem að hann gerði fyrir félagið var virkilega mikið, þar á meðal þessi bikarmeistaratitill sem hafði ekki komið í hús hjá okkur síðan árið 2012 og gerði mikið fyrir félagið. Við erum virkilega þakklát fyrir allt sem að hann gerði fyrir okkur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×