Upp­gjörið: Þór Þ. - Grinda­vík 95-104 | Grind­víkingar með stál­taugar í lokin

Siggeir Ævarsson skrifar
Daniel Mortensen var öflugur í liði Grindvíkinga í kvöld.
Daniel Mortensen var öflugur í liði Grindvíkinga í kvöld. Vísir/Anton Brink

Grindvíkingar sóttu tvö stig í Þorlákshöfn í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld eftir níu stiga sigur, 104-95 en Grindavíkurliðið var bæði án þjálfara síns og fyrirliða. NBA-maðurinn Jeremy Pargo lék sinn fyrsta leik og skoraði 25 stig.

Það var mikið undir í kvöld en liðin voru hnífjöfn að stigum fyrir leik, ásamt KR og Val, í 4. – 7. sæti, og þar fyrir utan aðeins tvö stig í næstu tvö lið fyrir neðan.

Grindvíkingar hafa gengið í gegnum töluverðar mannabreytingar síðustu daga og vikur og var Jeremy Pargo mættur til leiks í fyrsta sinn en þessi 38 ára fyrrum NBA leikmaður er augljóslega ekki dauður úr öllum æðum.

Það sást á leik Grindvíkinga í byrjun að þeir voru enn að finna taktinn en eftir smá bras í upphafi keyrðu gestirnir upp hraðann og ákefðina en þeir voru komnir með sjö stolna bolta í hálfleik gegn þremur hjá heimamönnum.

Ákefðin í vörninni skilaði Grindvíkingum mörgum hraðaupphlaupum og ófáum troðslum. Þórsarar voru þó ekki á því að láta rúlla algjörlega yfir sig en munurinn í hálfleik var þrettán stig, 37-50.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og minnkuðu muninn í sjö stig. Varnarleikur Grindvíkinga var annað hvort algjörlega á lás eða einhversstaðar lengst út á túni. Þristarnir voru líka að detta hjá Þórsurum en ótrúlegur flautuþristur frá Emil Karel, spjaldið ofan í, gerði það að verkum að aðeins munaði fjórum stigum fyrir lokasprettinn, 70-74.

Emil jafnaði svo leikinn í 79-79 og úr varð æsispennandi lokakafli og Þórsarar komust yfir á ný þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Mustapha Heron fór þar mikinn og réðu Grindvíkingar illa við hann undir körfunni eða gleymdu honum opnum í horninu.

Grindvíkingar áttu þau svör og það voru þeir Jeremy Pargo og Daniel Mortensen en Pargo skellti síðasta naglanum í kistulokið með þristi sem hefði sennilega gefið fjögur stig í síðustu deild sem hann spilaði í.

Lokatölur urðu 95-104 og Grindvíkingar slíta sig aðeins frá pakkanum í miðri deild.

Atvik leiksins

Emil Karel Einarsson setti algjörlega galinn flautuþrist þegar þriðja leikhluta lauk, spjaldið ofan í. Karfan kom eftir klaufaleg mistök Grindvíkinga í lokasókninni og hefði örugglega pirrað þá langt fram í næstu viku ef Þórsarar hefðu tekið sigurinn í lokin.

Stjörnur og skúrkar

Nikolas Tomsick var aðsópsmikill í liði Þórsara í kvöld með 24 stig, sjö fráköst og ellefu stoðsendingar og tapið verður ekki skrifað á hann. Mustapha Heron kom næstur með 21 stig en Þórsarar hefðu án vafa þegið ögn meiri áræðni og betri skotnýtningu frá honum í kvöld.

Hjá Grindavík fór Daniel Mortensen á kostum, skoraði 26 stig og tók níu fráköst. Jeremy Pargo átti einnig mjög góða innkomu í lið Grindavíkur í sínum fyrsta leik, 25 stig og sex stoðsendingar. Ef frá eru talin tvö víti sem Arnór Tristan skoraði úr þá skoruðu þeir Mortensen og Pargo 16 af síðustu stigum Grindavíkur.

Jafnbesti leikmaður Grindavíkur í kvöld var þó DeAndre Kane sem skoraði 16 stig, gaf tíu stoðsendingar, tók sjö fráköst og stal sjö boltum.

Dómararnir

Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson og Ingi Björn Jónsson fengu það verkefni að dæma þennan fjöruga leik og fórst það ágætlega úr hendi. Ég var þó jafn hissa og þjálfarateymi Grindavíkur sem sat rétt við hliðina á mér að aldrei væru dæmd skref, en hver skilur svo sem skrefareglurnar í dag?

Stemming og umgjörð

Grindvíkingar fjölmenntu í Þorlákshöfn í kvöld og voru búnir að fylla sinn hluta af stúkunni löngu fyrir leik. Það er kannski ekkert skrítið enda búa fjölmargir þeirra í Þorlákshöfn í dag. Heimamenn voru seinni að mæta en mættu þó og það var góð stemming í stúkunni í kvöld hjá báðum liðum.

Viðtöl



Lárus Jónsson: „Klaufagangur hjá okkur“

Lárus JónssonVísir/Bára

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, var ekki sáttur með hvernig hans menn gerðu sér leikinn erfiðan í kvöld með klaufagangi og ódýrum körfum eftir tapaða bolta.

„Svona helst fannst mér við vera sjálfum okkur verstir. Við vorum að tapa boltanum undir okkar eigin körfu og þeir voru að fá körfu þannig trekk í trekk. Það var bara hrikalegt dýrt. Þegar augnablikið var með okkur, við vorum að fara í sókn, missum við boltann og þeir skora „lay-up“.“

DeAndre Kane stal sjö boltum í kvöld og það fór sannarlega ekki framhjá Lárusi. 

„Við tökum varnarfrákast eftir góða vörn, Kane kemur og tekur boltann af okkur og skorar. Þeir skoruðu rosalega mikið eftir tapaða bolta hjá okkur, þetta voru rándýrir tapaðir boltar. Leikurinn fór eiginlega þar.“

Grindvíkingar hafa gert töluverðar breytingar á sínum leikmannahópi síðustu vikur en Lárus sagði að þrátt fyrir það hefði fátt komið honum á óvart í kvöld.

„Við vissum náttúrulega um alla nema Pargo. Við vorum náttúrulega búnir að sjá hann spila í ACB og vissum að hann er frábær leikmaður. Þannig að nei, það var ekkert sem kom okkur sérstaklega á óvart.“

Tap í kvöld er dýrt fyrir Þórsara í ljósi stöðunnar, en Lárus var greinilega ekki alveg með stöðuna á hreinu þegar hann fór yfir úrslitum og þýðingu þeirra, en Grindavík er nú einum sigri á undan Þór.

„Við hefðum getað verið fjórum stigum á undan Grindavík en núna erum við bara jöfn að stigum. Það hefði verið sætt að taka þennan og við ætluðum okkur virkilega að ná honum en það tókst ekki í þetta skiptið.“

Það er ekki margt sem Þórsarar geta breytt fyrir næsta leik að mati Lárusar, nema kannski að minnka klaufaganginn.

„Ég veit ekki hvort maður getur breytt eða bætt einhverju svona. Mér fannst þetta bara smá klaufagangur hjá okkur. Annars fannst mér við vera að spila bara nokkuð vel, sérstaklega í seinni hálfleik.“

Jeremy Pargo: „Fyrsti leikurinn minn og það tekur smá stund að aðlagast“

Jeremy Pargo var Grindvíkingum mikilvægur í kvöld í sínum fyrsta leik og sagðist vera ánægður með íslensku deildina og tækifærið að fá að spila hérna.

„Menn spila af fullri hörku hérna! Ég er ánægður með að vera kominn hingað, menn leggja sig virkilega fram. Þetta var erfiður leikur og þeir settu stór skot. Sem betur fer fundum við út úr hlutunum í fjórða leikhluta og lönduðum stórum sigri.“

Pargo skaut mikið í kvöld og setti aðeins tvo þrista, báða ansi langt fyrir utan. Er hann kannski betri skytta aðeins lengra frá körfunni?

„Þetta er alveg klikkuð spurning en þetta er rétt. Ég er sennilega aðeins betri skytta lengra frá.“

Þú leiddir náttúrulega Big3 deildina í fjögurra stiga skotum.

„Ahh! Þú ert búinn að vinna heimavinnuna þína. En þetta var fyrsti leikurinn minn og það tekur smá stund að aðlagast. Velja skotin mín rétt og vera aggressífur. Ég skaut sennilega aðeins of mikið í kvöld en þegar upp er staðið unnum við leikinn og strákarnir hvöttu mig til að halda mínu striki og þetta blessaðist allt að lokum.“

Jóhann Árni, þjálfari Grindavíkur, bar Pargo söguna vel í viðtali eftir leik og sagði að innkoma hans á æfingar hefðu augljós áhrif á hópinn. Sjálfur sagðist hann vera mjög sáttur og lífið á Íslandi og með Grindavík væri gott.

„Allar hafa tekið mjög vel á móti mér og tekið mér með opnum örmum. Ungu strákarnir hafa spurt mig ráða og þjálfararnir hvatt mig til að miðla minni reynslu. Ég er hamingjusamur með að vera hérna, þetta er tækifæri sem ég ætla að nýta mér til hins ítrasta.“

Að lokum fékk Pargo svo að senda afmæliskveðju á mömmu sína í myndavélina.

„Til hamingju með afmælið mamma! Þú ert nú orðin svolítið gömul, þú verður að slaka á. Elska þig!“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira