Upp­gjörið: Fram - Aftur­elding 34-32 | Ó­trú­leg endur­koma eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálf­leik

Hinrik Wöhler skrifar
Reynir Þór Stefánsson spilaði stórt hlutverk í endurkomusigri Fram í dag.
Reynir Þór Stefánsson spilaði stórt hlutverk í endurkomusigri Fram í dag.

Fram sigraði Aftureldingu með tveggja marka mun í Olís-deild karla í Úlfarsárdal í dag. Framarar voru sjö mörkum undir í hálfleik en frábær byrjun þeirra í seinni hálfleik lagði grunninn að dramatískum sigri og á endanum fór leikurinn 34-32, heimamönnum í vil.

Mosfellingar byrjuðu leikinn af krafti og voru í litlum vandræðum með að opna vörn Fram. Heimamenn voru hikandi í sókn og Mosfellingar komu sér í fjögurra marka forskot snemma leiks. Einar Jónsson, þjálfari Fram, hafði séð nóg eftir tæpar átta mínútur og tók leikhlé.

Leikmenn Aftureldingar héldu áfram að keyra yfir Framara í upphafi leiks og var staðan orðin 10-3, Mosfellingum í vil, um miðbik fyrri hálfleiks. Í kjölfarið vöknuðu Framarar í skamma stund og voru beittari í sókninni.

Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik náðu Framarar að minnka muninn niður í þrjú mörk og voru heimamenn komnir aftur inn í leikinn. Hins vegar voru síðustu mínútur fyrri hálfleiks eign Aftureldingar.

Varnarleikur Framara í fyrri hálfleik var dapur og á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks skoruðu Mosfellingar sex mörk.

Leikmenn Aftureldingar kórónuðu frábæran fyrri hálfleik með sirkusmarki á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks og var staðan 20-13 í hálfleik.

Framarar voru hins vegar ekki búnir að gefast upp og byrjuðu seinni hálfleik gríðarlega vel. Heimamenn skoruðu fyrstu fimm mörk seinni hálfleiks og Mosfellingar gátu ekki skorað til að bjarga lífi sínu.

Loks kom fyrsta mark Aftureldingar í seinni hálfleik eftir rúmlega níu mínútna leik. Þá var ljóst að leikmenn Fram voru komnir á bragðið og héldu áfram að saxa á forskot Mosfellinga.

Reynir Þór Stefánsson, leikstjórnandi Fram, jafnaði leikinn í 24-24 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og tók það Framara aðeins 15 mínútur að vinna niður sjö marka forskot Aftureldingar.

Mosfellingar gripu til þess ráðs að leika sjö á sex í sókninni og leituðu mikið inn á línu. Það gekk upp oft á tíðum en þegar þeir misstu boltann þá voru Framarar fljótir að refsa hinum megin.

Heimamenn voru sterkari á síðustu mínútum leiksins og að lokum sigruðu Framarar með tveggja marka mun, 34-32, í ótrúlegum endurkomusigri í Úlfarsárdal í dag.

Atvik leiksins

Skyttan unga hjá Fram, Marel Baldvinsson, kom Fram yfir á 49. mínútu í fyrsta sinn síðan í stöðunni 2-1. Stuðningsmenn og leikmenn Fram fögnuðu vel og innilega höfðu líklegast fáir trúað því í hálfleik að tæplega 20 mínútum síðar væri staðan orðin 27-26 og Framarar væru komnir yfir.

Framarar létu þetta forskot ekki af hendi og kláruðu leikinn í kjölfarið.

Stjörnur og skúrkar

Markvörður Fram, Breki Hrafn Árnason, kom frábærlega inn í seinni hálfleik og varði eins og berserkur á mikilvægum kafla í leiknum.

Reynir Þór Stefánsson og Marel Baldvinsson leiddu sóknarleik Fram og áttu varnarmenn Aftureldingar í miklum erfiðleikum með að stöðva þá þegar þeir komu á ferðinni.

Ljósi punkturinn í liði Aftureldingar var línumaður Kristján Ottó Hjálmsson en það var mikið leitað til hans, sérstaklega þegar Mosfellingar léku sjö á sex, og skoraði hann átta mörk í dag.

Lykilleikmenn í liði Aftureldingar áttu erfitt uppdráttar í seinni hálfleik. Blær Hinriksson og Birgir Steinn Jónsson fóru illa að ráði sínu í seinni hálfleik og var sá fyrrnefndi með fjögur mörk úr fjórtán tilraunum, sem gerir 29% skotnýtingu.

Dómarar

Það var talsvert um stimpingar í leiknum og voru samtals 11 brottvísanir í leiknum.

Dómarar leiksins, Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson, íhuguðu að gefa Þorvaldi Tryggvasyni, leikmanni Aftureldingar, rautt spjald þegar hann fór í andlitið á leikmanni Fram en eftir að hafa farið yfir atvikið í skjánum létu þeir það vera og slapp hann með tveggja mínútna brottvísun.

Tvíeykið hélt þó ágætlega utan um leikinn og héldu sömu línu á báðum endum vallarins.

Stemning og umgjörð

Það var tvíhöfði í Úlfarsárdalnum í dag en á sama tíma og þessi leikur var fór fram knattspyrnuleikur í Lengjubikarnum á Lambhagavellinum. Talsverður áhorfendaskari týndist inn í salinn þegar fótboltaleiknum lauk og var hörkustemning í Lambhagahöllinni þegar áhorfendur horfðu á dramatískar lokamínútur leiksins.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira