Upp­gjörið: Valur - Höttur | Vals­menn keyrðu yfir Hött í fyrri hálf­leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Kristinn Pálsson og félagar í Valsliðinu unnu léttan sigur í kvöld.
Kristinn Pálsson og félagar í Valsliðinu unnu léttan sigur í kvöld. Vísir/Diego

Valsmenn héldu sigurgöngu sinni áfram í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld með 34 stiga sigri á Hetti, 92-58, á Hlíðrenda. Þetta var fjórði sigur Valsliðsins í röð og kom liðinu upp í fimmta sætið.

Tvö lið í leit að mikilvægum stigum í Bónus-deild karla mættust á Hlíðarenda í kvöld en 25-2 áhlaup heimamanna undir lok fyrri hálfleiks slökkti hressilega í vonum Hattar um að ná í sinn fyrsta sigur í sex leikjum.

Leikurinn fór klunnalega af stað og fyrstu fjórar sóknir hans minntu á fyrsta leik að hausti, slíkur var flumbrugangurinn í sendingum og skotum. Gestirnir komust svo í ágætan takt og leiddu með tveimur stigum, 17-19, eftir fyrstu tíu mínúturnar.

Þristarnir voru ekki að detta hjá báðum liðum framan af en svo brast á með úrhelli og Hattarmenn virtust ætla að setjast í bílstjórasætið en þá varð hrun. Valsmenn breyttu stöðunni úr 25-32 í 48-32. Þetta virtist algjörlega draga allan vind úr seglum gestanna og skildi engan undra og ekki hjálpaði til að Nemanja Knezevic fékk tvær tæknivillur í röð fyrir tuð og lauk leik þegar aðeins 17 mínútur voru liðnar af leiknum.

Eftir þetta áhlaup var það nánast formsatriði fyrir Valsmenn að klára leikinn. Vonleysi Hattar kórónaðist mögulega í loftbolta Adam Heede-Andersen sem kom í kjölfarið á þristi frá Ramos. Það gekk einfaldlega ekkert upp hjá Hetti eftir því sem leið á leikinn en Valsmenn leiddu með tæpum 30 stigum fyrir lokaleikhlutann, 76-49.

Þægilegur yfirburðasigur hjá Valsmönnum í kvöld. Hagur þeirra vænkast í deildinni en farið að syrta ískyggilega í álinn hjá Hattarmönnum og falldraugurinn farinn að banka fast á dyrnar. Lokatölur 92-58.

Nánari umfjöllun og viðtöl á Vísi síðar í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira