Íslenski boltinn

Þorri sagður á heim­leið: „Verð þakk­látur alla ævina“

Sindri Sverrisson skrifar
Þorri Mar Þórisson lék með KA áður en hann var seldur til Svíþjóðar.
Þorri Mar Þórisson lék með KA áður en hann var seldur til Svíþjóðar. vísir/Diego

Dalvíkingurinn Þorri Mar Þórisson, fyrrverandi leikmaður KA, hefur kvatt Öster og er sagður á leið aftur heim í Bestu deildina í fótbolta eftir veru sína í Svíþjóð.

KA seldi Þorra til sænska félagsins Öster í ágúst 2023 en hann hafði þá spilað 66 leiki fyrir liðið í efstu deild og skorað í þeim þrjú mörk. Tvíburabróðir hans, sóknarmaðurinn Nökkvi Þeyr, hafði verið seldur frá KA til belgíska félagsins Beerschot tæpu ári áður.

Þorri lék aðeins 11 deildarleiki í fyrra með Öster, þar af einn í byrjunarliði, þegar liðið vann sig upp í sænsku úrvalsdeildina með því að lenda í 2. sæti næstefstu deildar.

Staðarmiðillinn Smålandsposten greindi frá því í gær að Þorri, sem er 25 ára bakvörður, væri nú á förum frá Öster og það heim til Íslands.

Bæði 433.is og Fótbolti.net segja Þorra hafa einhverja kosti erlendis en sennilegast virðist að hann komi til Íslands og ljóst að mörg félög hafa áhuga á að krækja í hann.

Kveðst þakklátur fyrir tímann í Öster

Þorri hefur nú verið kvaddur á heimasíðu Öster en samningur hans við félagið, sem nú hefur verið rift, átti að gilda til ársins 2026. Í kveðju til félagsins segir Þorri:

„Þegar ég kom til Öster var stóra markmiðið að komast upp í Allsvenskan, og það gerðum við. Tíminn minn hérna hefur verið frábær upplifun og eitthvað sem ég mun verða mjög þakklátur fyrir alla ævina. Ég hefði auðvitað viljað ná að gefa meira af mér sjálfur en stundum gerast hlutir sem maður hefur ekki stjórn á. Ég hef alltaf gert mitt besta til að leggja allt mitt að mörkum hérna. Ég óska Öster og öllum hjá félaginu gæfu í framtíðinni og vonandi sjáumst við aftur!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×