Handbolti

Orri Freyr full­kominn í Meistara­deildinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson átti mjög flottan leik með Sporting í Meistaradeildinni í kvöld.
Orri Freyr Þorkelsson átti mjög flottan leik með Sporting í Meistaradeildinni í kvöld. Getty/Gualter Fatia

Íslenski landsliðshornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson átti flottan leik með portúgalska félaginu Sporting í Meistaradeildinni í handbolta í kvöld.

Sporting vann sex marka heimasigur á HC Eurofarm Pelister frá Norður Makedóníu, 30-24, eftir að hafa verið 14-13 yfir í hálfleik.

Orri Freyr fór á kostum í vinstri horninu og skoraði sjö mörk úr sjö skotum. Hann var næstmarkahæstur á eftir Salvador Salvador sem var með marki meira.  Fjögur af sjö mörkum Orra komu úr vítum.

Það voru fleiri íslenskir landsliðsmenn í sigurliði.

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í pólska liðinu Wisla Plock unnu þriggja marka útisigur á franska liðinu Paris Saint Germain, 31-28.

PSG var einu marki yfir í hálfleik, 15-14, en Wisla Plock voru sterkir í seinni hálfleiknum sem þeir unnu 17-13.

Viktor Gísli stóð sig vel og varði tólf bolta.

Sporting komst upp í annað sætið í sínum riðli með þessum sigri en liðið er með fimmtán stig og fimm stigum á eftir toppliði Veszprem.

Wisla Plock var aftur á móti bara að vinna þriðja Meistaradeildarsigur sinn á tímabilinu og náðu þeir HC Eurofarm Pelister að stigum með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×