Innlent

Úlpu stolið af ung­menni og rusl losað við þjóð­veginn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál þar sem unglingar tóku úlpu af ungmenni en tilkynnt var um atvikið í gærkvöldi eða nótt. Þá var einn handtekinn í tengslum við líkamsárás í borginni.

Lögregla handtók einnig einstakling sem var að reyna að brjótast inn í húsnæði og er sá einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Nokkrir voru reyndar stöðvaðir grunaðir um fíkniefnavörslu, meðal annars í umferðinni.

Lögregla var einnig kölluð til vegna ofurölvi einstaklings sem var með ógnandi tilburði og til að aðstoða leigubílstjóra vegna farþega sem svaf ölvunarsvefni í bifreið hans.

Þá var tilkynnt um þjófnað úr verslun og rúðubrot í íbúð.

Lögregla kom einnig að málum þar sem ekið var á kyrrstæðan bíl og stungið af og þar sem einstaklingar á tveimur bifreiðum höfðu verið að henda rusli úr bílunum úti í náttúrunni skammt frá þjóðveginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×