Þetta sagði Trump við blaðamenn í Hvíta húsinu í gær , þar sem hann harmaði gríðarlegan kostnað við þróun og framleiðslu kjarnorkuvopna.
„Það er engin ástæða fyrir okkur að vera að framleiða splunkuný kjarnorkuvopn. Við eigum svo mörg nú þegar,“ sagði forsetinn. „Þú gætir tortímt heiminum 50 sinnum, 100 sinnum. Og hér erum við að framleiða ný kjarnorkuvopn og þeir eru að framleiða ný kjarnorkuvopn.“
Trump sagði ríkin eiga það sameiginlegt að vera að eyða miklum fjárhæðum sem væri betur varið í annað.
Hann sagðist telja að Kínverjar yrðu komnir á sama stað og Bandaríkjamenn og Rússar eftir fimm til sex ár en ef vopnunum yrði beitt myndi það augljóslega þýða gjöreyðingu.
Forsetinn sagðist vilja hefja viðræður við ríkin tvö um leið og búið væri að finna lausnir í Mið-Austurlöndum og Úkraínu. Hann myndi vilja funda með forsetum Kína og Rússlands og finna leiðir til að draga úr útgjöldum til varnarmála.
Þá sagðist Trump einnig vilja fá Rússa aftur inn í G7.