Viðskipti innlent

Árni Frið­riks­son í loðnu norður af Vest­fjörðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson fer fyrir loðnuleitinni.
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson fer fyrir loðnuleitinni. Mynd/Hafrannsóknastofnun.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur fundið loðnu norður af Vestfjörðum. Ekki verður ljóst fyrr en eftir helgi hvort magnið sé nægileg viðbót til að unnt verði að gangsetja síðbúna loðnuvertíð og koma þannig í veg fyrir loðnubrest þennan veturinn.

Þrjú skip hafa verið við loðnuleit þessa vikuna. Árni Friðriksson hélt út síðastliðinn laugardag og síðan bættust við fiskiskipin Heimaey og Polar Ammassak. Auk þeirra er rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson í árlegum vetrarleiðangri umhverfis landið til að kanna ástand sjávar.

Siglingarferlar skipanna. Árni Friðriksson og Polar Ammassak voru í kvöld norður af Húnaflóa og Skaga en Heimaey við Grímsey. Bjarni Sæmundsson var undan Ingólfshöfða.Hafrannsóknastofnun

„Árni Friðriksson hefur verið í loðnu en ekki komin nein mynd á magnið þar ennþá. Árni er að sjá loðnu með landgrunnskantinum á sömu slóðum og í janúar,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.

„Ennþá hefur ekki verið neitt að sjá hjá Heimaey og Polar Ammassak,“ segir hann.

Spurður hvort þær lykkjur sem sjást á siglingaferli Polar Ammassak norður af Skaga í dag tákni að þar hafi orðið vart loðnu svarar Guðmundur:

„Þetta var ekkert hjá Polar, bara smá loðna.“

Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur er sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.Einar Árnason

Skipin klára yfirferðina þarna á morgun og í framhaldinu munu þau leita á grunnunum fyrir norðan land, að sögn Guðmundar.

„Það verður ekki komið mat á magnið hjá Árna fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn, og þá hvort þetta sé einhver viðbót við það sem áður hafði verið mælt á þessum slóðum,“ segir fiskifræðingurinn.


Tengdar fréttir

Lokatilraun til að bjarga loðnuvertíð

Hafrannsóknastofnun í samvinnu við loðnuútgerðir gerir núna lokatilraun til að finna loðnu við landið í nægjanlegu magni svo unnt sé að gefa út veiðikvóta áður en loðnan hrygnir og drepst. Að öðrum kosti blasir við loðnubrestur, annað árið í röð.

Segir skipta gríðarlegu máli að fá loðnuvertíð

Bæjarstjóri Hornafjarðar segir skipta gríðarlegu máli fyrir sveitarfélagið og þjóðarbúið að það verði loðnuvertíð. Skip í loðnuleit hafa síðustu daga fundið loðnu undan Húnaflóa og úti fyrir Norðausturlandi og Austfjörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×