Lífið

Tom Cruise og Ana de Armas sögð stinga saman nefjum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ósamræmis gætir á milli slúðurmiðlanna um hvort parið hafi hist á sjálfum Valentínusardeginum eða ekki.
Ósamræmis gætir á milli slúðurmiðlanna um hvort parið hafi hist á sjálfum Valentínusardeginum eða ekki. Vísir/Samsett

Leikararnir Tom Cruise og Ana de Armas vörðu kvöldstund saman og tala erlendir miðlar um það að þau séu að slá sér saman.

Breskir miðlar gripu þau glóðvolg stíga saman út af veitingastað í Lundúnum en heimildum kemur ekki saman um hvort það hafi verið á föstudaginn, sjálfan Valentínusardaginn, eða fimmtudaginn.

Mannmergð hafði myndast fyrir utan veitingastaðinn þegar þau stigu út, aðdáendur og fjölmiðlamenn í bland, og tók parið að sögn vel í hann. 

Þau gáfu sér tíma til að ræða við aðdáendur og sitja fyrir myndum. Þau héldu hvort á sínum afgangapokanum og stigu saman inn í einn af hinum einkennandi svörtu leigubílum Lundúnaborgar.

Tom Cruise komst síðast í slúðurmiðlana þegar fréttir bárust af því að hann og hin rússneska Elsina Khayrova væru að stinga saman nefjum. Heimildir Page 6 herma að slitnað hafi upp úr þeirra á milli vegna þess að Cruise fannst sambandið þróast of hratt.

Hin 36 ára Ana de Armas var síðast bendluð við Manuel Anido Cuesta, stjúpson forseta Kúbu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.