Körfubolti

Steph Curry valinn bestur á heima­velli og liðið hans Shaq vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry með Kobe Bryant bikarinn sem hann fékk fyrir að vera valinn mikilvægasti leikmaður Stjörnuleiksins.
Stephen Curry með Kobe Bryant bikarinn sem hann fékk fyrir að vera valinn mikilvægasti leikmaður Stjörnuleiksins. Getty/Ezra Shaw/

Gömlu karlarnir hans Shaquille O'Neal fögnuðu sigri í nótt í Stjörnuleik NBA deildarinnar sem fór fram með nýju fyrirkomulagi.

Leikurinn var haldinn í Chase Center í San Francisco, heimavelli Golden State Warriors.

Að þessu sinni var leikmönnum stjörnuleiksins skipt upp í þrjú lið og fjórða liðið var síðan lið sem hafði betur í samskonar keppni milli nýliða og annars árs leikmanna.

Shaquille O'Neal, Kenny Smith, og Charles Barkley kusu í liðin og Candace Parker stýrði unga liðinu.

Lið Shaq vann ungu strákana 42-35 í undanúrslitunum og vann síðan 41-25 sigur á liði Charles Barkley í úrslitaleiknum. Það lið sem var fyrst í fjörutíu stigin vann leikina.

Stephen Curry skoraði 12 stig í úrslitaleiknum og var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn. Hann skoraði fjóra þrista þar af einn frá miðju. Þetta var í annað skiptið sem hann vinnur þessi verðlaun en hann fékk þau einnig árið 2022.

Aðrir leikmenn í sigurliðinu voru Jayson Tatum, Kevin Durant, James Harden, Damian Lillard, Jaylen Brown og Kyrie Irving. LeBron James og Anthony Davis voru einnig í liðinu en gátu ekki spilað vegna meiðsla.

Tatum skoraði 15 stig í úrslitaleiknum og Irving var þriðji stigahæstur með sjö stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×