Hinn 57 ára Hendricks fór fyrir mosku í Höfðaborg þar sem samkynhneigðir múslimar og aðrir jaðarhópar áttu öruggt skjól.
Samkvæmt lögreglu var setið fyrir bifreið sem Hendricks var í. Tveir einstaklingar eru sagðir hafa skotið á bifreiðina, með þeim afleiðingum að Hendricks lést.
Morðið hefur vakið athygli og óhug í hinsegin samfélaginu og Julia Ehrt, framkvæmastjóri International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association (Ilga) segir nauðsynlegt að yfirvöld rannsaki málið í þaula.
Óttast sé að um hatursglæp hafi verið að ræða.
„Hann studdi og var fyrirmynd svo margra í Suður-Afríku og um allan heim á vegferð þeirra til að finna sig í trúnni og líf hans hefur verið vitnisburður um þá heilun sem eining þvert á samfélög getur fært,“ hefur BBC eftir Ehrt.
Fregnir herma að Hendricks hafi verið myrtur eftir að hann gaf saman lesbískt par.
Samkvæmt BBC olli það nokkru uppnámi meðal múslima í Höfðaborg þegar Hendricks kom opinberlega út úr skápnum árið 1996. Suður-Afríka var fyrsta Afríkuríkið til að lögfesta hjónaband samkynja para en fordómar og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki eru enn vandamál í landinu.