Skoðun

Að koma skrið­dreka á Snæ­fells­nes

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Ég viðurkenni hér í upphafi að þessi fyrirsögn er klikkbeita, en samt ekki.

Ísland stendur frammi fyrir tvenns konar vanda. Annars vegar er vegakerfið hrunið og hins vegar ber okkur að auka fé til öryggis og varnarmála umtalsvert. Innviðir eru öryggis og varnarmál að einhverju leiti og hér er tækifæri til að slá tvær flugur með einu höggi.

Framlög til öryggis og varnarmála ættu að vera 5% af vergri þjóðarframleiðslu samkvæmt forseta Bandaríkjanna. Það væru ríflega 200 milljarðar, við myndum standa okkur þjóða best og gætum greitt upp innviðaskuldina á kjörtímabilinu. Framlög okkar til öryggis og varnarmála eru um 5 milljarðar auk þess sem Landhelgisgæslan sinnir mikilvægu hlutverki og það kostar nokkra milljarða að auki. Það er alveg ljóst að okkur ber að setja meira fé í öryggismál og næsta víst að við munum gera það, þó ólíklegt sé að við hlýðum ráðgjöf Trump að fullu.

Ég er sannfærður um það að við gætum náð samkomulagi við NATO um það að besta nýting fjármuna í öryggis og varnarmál hér á landi sé styrking og endurbætur á samgöngukerfi landsins, því ekki þolir vegakerfið þungaflutninga lengur. Það er til lítils fyrir varnir landsins ef ekki er hægt að ferðast um landið.

Samgöngumál eru öryggis og varnamál. Við gætum mögulega slegið tvær flugur í einu höggi og notað nokkra milljarða árlega tvisvar sinnum, bætt vegakerfið og aukið fé til varnar og öryggismála.

Er það ekki góð nýting fjármuna?

Það finnst mér.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði




Skoðun

Skoðun

Kona

Anna Kristjana Helgadóttir skrifar

Sjá meira


×