Fótbolti

Fékk beint rautt fyrir spreng­hlægi­legan fávitaskap

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það urðu smá stimpingar eftir galna tilburði Toloi.
Það urðu smá stimpingar eftir galna tilburði Toloi. Stefano Nicoli/Speed Media/Icon Sportswire via Getty Images

Rafael Toloi, fyrirliði Atalanta frá Ítalíu, missti gjörsamlega hausinn í 3-1 tapi liðsins fyrir Club Brugge í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Honum gekk erfiðlega að fóta sig er hann hugðist hefna sín á andstæðingi.

Atalanta var 3-1 undir, samanlagt 5-2 í einvíginu, þegar Toloi lenti saman við Maxime De Cuyper, leikmann Club Brugge. De Cuyper truflaði innkast sem Toloi hugðist taka og þeim síðarnefnda var hreint ekki skemmt.

Klippa: Kristinn hló að berserksganginum

Hann reyndi að kasta boltanum í Belgann en missti boltann og hrasaði við þá athöfn. Þá spratt hann á fætur og rúgbýtæklaði De Cuyper. Dómari leiksins var ekki lengi að rífa upp reisupassann í kjölfarið.

Þetta kómíska atvik má sjá í spilaranum í lýsingu Kristins Kjærnested, sem gat ekki annað en hlegið af fíflagangi brasilíska varnarmannsins.

Fjórir leikir fara fram í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Stórleikur kvöldsins er milli Real Madrid og Manchester City á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×