Innlent

Sorg í Mos­fells­bæ eftir skemmdar­verk á liðs­rútunni

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Framrúðan var mölbrotin.
Framrúðan var mölbrotin. Afturelding

Gríðarleg skemmdarverk voru unnin á liðsrútu Aftureldingar í nótt. Rútan hefur verið í eigu félagsins síðan 2010 og segja forsvarsmenn félagsins að sorgin í samfélaginu sé mikil.

„Leikmenn karlaliðs Aftureldingar í fótbolta voru á leið út á flugvöll í æfingarferð, þá komum við svona að rútunni í morgun. Það er alveg ömurlegt að koma að þessu svona, alveg glatað,“ segir Garðar Smárason, en sonur hans er einn af þjálfurum liðsins.

Hann segir að umsjónarmaður rútunnar, Einar, sé einn af máttarstólpum Aftureldingar.

Hanna Símonardóttir, kona Einars, er annar máttarstólpi Aftureldingar. Hún segir að rútan hafi verið í eigu félagsins frá 2010 og hafi flutt Aftureldingu um allt land.

„Þessi rúta kom þeim upp úr annarri deildinni og upp úr Lengjudeildinni. Það má segja að það sé sögulegt afrek út af fyrir sig,“ segir hún.

Erfitt að finna varahluti

Rútan er frá árinu 1984 og segir Hanna ekki hlaupið að því að finna varahluti í hana.

„Rútan er 41 árs í dag og hefur þjónað okkur vel. Hún er í toppstandi til að gera það áfram þökk sé Einari, sem klappar henni á hverjum degi,“ segir hún.

Hún segir að Einar hafi verið að leita undanfarin ár að varaframrúðu, en hafi hingað til ekkert fundið. Skemmdarverkið sé töluvert mikið verra fyrir vikið.

Hún segir Aftureldingu skora á þá sem frömdu skemmdarverkin að gefa sig fram.

„Ég held það hljóti að vera að þeir sem hagi sér svona, þeim líði ekki vel,“ segir hún.

Rútan er árgerð 1984.Afturelding
Tvær rúður voru mölbrotnar.Afturelding



Fleiri fréttir

Sjá meira


×