Þetta sagði Selenskí á blaðamannafundi í Kænugarði í dag.
„Ef það verður friður fyrir Úkraínu, ef þið viljið endilega að ég hverfi frá, þá er ég tilbúinn. Ég get gert þetta í skiptum fyrir aðild að NATO,“ sagði hann.
Hann þurfi ekki að vera forseti í áratug. Þá væri aðalatriðið að tryggja öryggi í Úkraínu í dag, en ekki á næstu tuttugu árum.
Kallar Selenskí einræðisherra
Donald Trump hefur kallað Selenskí einræðisherra og gefið í skyn að hann sé spilltur. Hann neitaði að kalla Pútín einræðisherra í vikunni.
Herlög eru í gildi í Úkraínu og hafa þar af leiðandi engar kosningar verið haldnar í landinu í þrjú ár.
Sjá: Kallar selenskí einræðisherra og varpar fram lygum
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að NATO-aðild Úkraínu komi ekki til greina.
Fregnir hafa borist af því að Donald Trump hafi krafist þess að kosningar verði haldnar í Úkraínu sem fyrst, jafnvel áður en friðarsamningar nást við Rússland.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði um helgina að nýr samningur sem snýr að umfangsmikilli námuvinnslu Bandaríkjanna í Úkraínu yrði vonandi undirritaður á næstunni. Selenskí sagði að verið væri að vinna að sanngjörnum samningum.