Hinn 74 ára gamli Joel Le Scouarnec viðurkennir að hafa framið þá flesta glæpi sem hann er sakaður um, sagði lögfræðingur hans á fyrsta degi réttarhaldanna. Hann afplánar nú þegar dóm frá 2020, þegar hann var fundinn sekur um að hafa misnotað fjögur börn, þar á meðal tvær frænkur hans.
Fjölskylda Le Scouarnec er sögð hafa vitað um hegðun hans í mörg ár og þá leikur grunur á um að samstarfsmenn læknisins og stofnanir þar sem hann vann hafi hylmt yfir með honum. Talið er að í flestum tilvikum hafi Le Scouarnec brotið gegn börnunum á meðan þau voru undir svæfingu en skurðlæknirinn sérhæfði sig í aðgerðum á botnlanga.
Það voru dagbækur Le Scouarnec sem komu upp um umfang brotanna og mörg barnanna, sem eru fullorðin í dag, höfðu ekki hugmynd um að hann hefði brotið gegn þeim fyrr en lögregla hafði samband.
256 af 299 fórnarlömbum sem hann er sakaður um að hafa nauðgað eða ráðist á voru yngri en 15 ára þegar brotin áttu sér stað. Yngsta fórnarlambið var eins árs en það elsta sjötugt, að því er fram kemur í ákæru. Misnotkunin á að hafa átt sér stað á tugum ólíkra sjúkrahúsa á árunum 1989 til 2014.
Gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi í fjóra mánuði. Aðeins tveir mánuðir eru síðan Frakkinn Dominique Pélicot var sakfelldur fyrir að hafa boðið tugum karlmanna að nauðga þáverandi eiginkonu sinni. Fimmtíu þeirra voru einnig sakfelldir.