Innlent

Sýknuð af á­kæru fyrir að láta um­skera son sinn

Árni Sæberg skrifar
Umskurðurinn var framkvæmdur í heimahúsi á Akureyri og í annað sinn á sjúkrahúsinu þar í bæ.
Umskurðurinn var framkvæmdur í heimahúsi á Akureyri og í annað sinn á sjúkrahúsinu þar í bæ. Vísir/Vilhelm

Móðir hefur verið sýknuð af ákæru fyrir stórfellda líkamsárás og brot í nánu sambandi með því að hafa látið umskera sautján mánaða gamlan son sinn. Sonurinn endaði á sjúkrahúsi eftir umskurðinn.

Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins. Dómur var kveðinn upp í málinu í gær en hefur ekki verið birtur. Því liggja ekki fyrir frekari upplýsingar um forsendur sýknudómsins.

Umskorinn af trúarlegum ástæðum

Málið varðaði umskurð í heimahúsi á Akureyri árið 2022, sem sagður var hafa verið framkvæmdur af trúar- eða menningarlegum ástæðum. Í frétt Ríkisútvarpsins á sínum tíma sagði að kona frá Gana hefði ferðast frá Ítalíu til Íslands gagngert til þess að umskera drenginn.

Drengurinn hafi verið fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri eftir umskurðinn, þar sem aðgerðin hafi verið framkvæmd á ný til þess að koma í veg fyrir sýkingarhættu.

Ekki bannað að umskera drengi

Umskurður drengja er ekki bannaður hér á landi en hefur verið nokkuð umdeildur. Árið 2018 lagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fram frumvarp ásamt átta öðrum þingmönnum, þar sem lagt var til að umskurður barna yrði alfarið bannaður. Frumvarpið vakti gríðarlega athygli hér á landi sem og erlendis, en náði að endingu ekki fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×