Klaveness var sú eina sem bauð sig fram í það sæti í stjórninni sem verður að vera skipað konu. Hún er því örugg inn löngu fyrir ársþingið.
Norskir fjölmiðlar fjalla um laun Klaveness en samkvæmt ársreikningum UEFA þá fær hver stjórnarmeðlimur 160 þúsund evrur á ári fyrir að sitja í stjórninni eða meira en 23 milljónir íslenskra króna.
Klaveness verður líka áfram formaður norska knattspyrnusambandsins þar sem hún fær 25 milljónir íslenskra króna á ári.
Klaveness var spurð út í launin sín á blaðamannafundi. Norska ríkisútvarpið fjallar um málið.
„Persónulega þá finnst mér þessi laun vera of há af því að þetta á að vera sjálfboðaliðastarf. Eiginkona mín (Ingrid Camilla Fosse Sæthre) er í leyfi frá vinnu og þess vegna munu þessi tvöföldu laun mín brúa bilið heima hjá okkur,“ sagði Klaveness.
Klaveness talaði síðan um að hún myndi gefa frá sér hluta launanna þegar konan verður komin aftur í vinnu.
„Hún valdi þetta sjálf af því að henni fannst ég ferðast svo mikið. Þegar hún fer aftur í vinnu þá mun ég sjá til þess að hluti af launum mínu fari til góðgerðamála. Þetta er mitt val en ég ræði þetta við ykkur af því að ég veit að fólk er að velta þessu fyrir sér í Noregi,“ sagði Klaveness.
Hún ætlar að gefa 35 prósent af launum sínum.
Ársþingið hjá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, fer fram í Belgrad í Serbíu 3. april næstkomandi.