Handbolti

Missti tönnina, tók hana upp og fór í bikarúr­slit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram, tók tönnina út úr sér í sjónvarpsviðtalinu eftir leik.
Einar Jónsson, þjálfari Fram, tók tönnina út úr sér í sjónvarpsviðtalinu eftir leik. Skjámynd/RÚV

Einar Jónsson og lærisveinar hans í Fram eru komnir í bikarúrslitaleikinn eftir sigur í svakalegum undanúrslitaleik á móti Aftureldingu á Ásvöllum í gær.

Fram vann leikinn 36-33 en ekki þó fyrr en í framlengingu. Fram hefur ekki orðið bikarmeistari í 25 ár en fær nú tækifæri til að enda þá bið í úrslitaleiknum á laugardaginn kemur.

Það gekk mikið á í þessum leik enda hraðinn mikill og liðin skiptust á að eiga góða og slæma kafla.

Einar hafði í miklu að snúast á hliðarlínunni en það vakti sérstaklega athygli þegar hann missti eitthvað út úr sér í öllum spenningnum.

Einhverjir héldu kannski að þetta væri tyggjó eða eitthvað slíkt en raunin var önnur.

Einar missti þarna tönn úr í sér í gólfið. Hann tók tönnina aftur upp og setti hana upp í sig. Einar stýrði síðan Framstrákunum í úrslitaleikinn.

Einar var spurður út í tönnina í viðtali í útsendingu Ríkisútvarpsins eftir leikinn.

„Nei, ég er með lausa eina. Ég á svo erfitt með að tala þegar ég er með þetta. Þannig ég er yfirleitt ekki með hana í leikjum,“ sagði Einar Jónssson í sjónvarpsviðtali eftir leik og tók tönnina út úr sér.

Það má horfa á viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×