Innlent

Notuðu rafvopn til að yfir­buga ógnandi mann með hamra

Jón Þór Stefánsson skrifar
Lögreglan notast við skotmörk sem þessi til að æfa rafbyssunotkunina.
Lögreglan notast við skotmörk sem þessi til að æfa rafbyssunotkunina. Vísir/Arnar

Lögreglan beitti rafvopni í þriðja sinn hér á landi síðastliðinn mánudag. Vopninu var beitt í Hafnarfirði, í Helluhverfinu, gegn manni sem neitaði að fylgja fyrirmælum lögreglu.

Lögreglu var tilkynnt um manninn um þrjúleytið að degi til á mánudag, að sögn Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Maðurinn var með tvo hamra og hafði verið búinn að berja í rafmagnstöflu og bíl. Þá hafi hann verið ógnandi, með hamrana, gagnvart lögreglumönnum.

Skúli segir að í fyrstu hafi lögregla beitt sínu fyrsta valdbeitingartóli, röddinni, og það ekki borið árangur. Síðan hafi úðavopni verið beitt og það ekki heldur virkað. Því hafi verið ákveðið að grípa til rafbyssunnar til að yfirbuga manninn.

Maðurinn var síðan vistaður á viðeigandi stofnun.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir embætti Ríkislögreglustjóri að um þriðja tilfellið hafi verið að ræða þar sem rafvarnarvopni var beitt. Fyrri tvö tilfellin áttu sér stað í desember á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×