Real Madríd varð af mikilvægum stigum í titilbaráttunni Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar 1. mars 2025 19:30 Isco, fyrir miðju, fagnar. CRISTINA QUICLER / AFP Isco beit sitt fyrrverandi lið Real Madríd í rassinn þegar hann skoraði og lagði upp mörk Real Betis í óvæntum 2-1 sigri heimamanna á stórliðinu frá Madríd. Brahím Diaz kom gestunum yfir eftir sendingu Ferland Mendy á tíundu mínútu og stefndi í að Real Madríd væri að tylla sér á topp deildarinnar. Heimamenn hafa hins vegar verið á góðu skriði og jafnaði Johnny Cardoso metin á 34. mínútu eftir undirbúning Isco. Staðan var 1-1 í hálfleik en Betis komst yfir innan við tíu mínútum eftir að síðari hálfleikur fór af stað. Antonio Rüdiger gerðist brotlegur innan vítateigs og fór Isco – sem var á mála hjá Real Madríd frá 2013 til 2022 – á punktinn. Þessi 32 ára gamli sóknarsinnaði miðjumaður skoraði úr spyrnunni og reyndist það sigurmark leiksins. Lokatölur á Benito Villamarín-vellinum í Sevilla 2-1 heimamönnum í vil. Sigurinn þýðir að Betis er nú með 38 stig í 6. sæti eftir 26 leiki. Real Madríd er á sama tíma í 2. sæti með 54 stig, líkt og topplið Barcelona sem á leik til góða. Þá er Atlético Madríd með 53 stig í 3. sæti og einnig með leik til góða á nágranna sína. Spænski boltinn Fótbolti
Isco beit sitt fyrrverandi lið Real Madríd í rassinn þegar hann skoraði og lagði upp mörk Real Betis í óvæntum 2-1 sigri heimamanna á stórliðinu frá Madríd. Brahím Diaz kom gestunum yfir eftir sendingu Ferland Mendy á tíundu mínútu og stefndi í að Real Madríd væri að tylla sér á topp deildarinnar. Heimamenn hafa hins vegar verið á góðu skriði og jafnaði Johnny Cardoso metin á 34. mínútu eftir undirbúning Isco. Staðan var 1-1 í hálfleik en Betis komst yfir innan við tíu mínútum eftir að síðari hálfleikur fór af stað. Antonio Rüdiger gerðist brotlegur innan vítateigs og fór Isco – sem var á mála hjá Real Madríd frá 2013 til 2022 – á punktinn. Þessi 32 ára gamli sóknarsinnaði miðjumaður skoraði úr spyrnunni og reyndist það sigurmark leiksins. Lokatölur á Benito Villamarín-vellinum í Sevilla 2-1 heimamönnum í vil. Sigurinn þýðir að Betis er nú með 38 stig í 6. sæti eftir 26 leiki. Real Madríd er á sama tíma í 2. sæti með 54 stig, líkt og topplið Barcelona sem á leik til góða. Þá er Atlético Madríd með 53 stig í 3. sæti og einnig með leik til góða á nágranna sína.