Erlent

Ríkis­út­varpið leggur niður störf í miðri kosninga­bar­áttu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Helmingur allra blaðamanna á Grænlandi vinna við fréttadeild ríkisútvarpsins.
Helmingur allra blaðamanna á Grænlandi vinna við fréttadeild ríkisútvarpsins. Kalaallit Nunaata Radioa

Fréttastofa grænlenska ríkisútvarpsins sneri aftur til starfa síðdegis í dag eftir tæplega tveggja daga verkfall. Kosningar fara fram í Grænlandi ellefta mars næstkomandi. Helmingur allra blaðamanna landsins vinna við fréttadeild ríkisútvaprsins.

Sermitsiaq greinir frá þessu en er það hinn tveggja fjölmiðla Grænlands. Sextán starfsmenn fréttadeildarinnar lögðu niður störf í gær og krefjast þess að ráðin verði bót á mikilli manneklu. Fram kemur í fréttatilkynningu frá starfsmönnunum að fjórir starfsmenn sinni vinnu tólf og að það hafi víðtæk áhrif á heilbrigði starfsfólks og gæði frétta.

Útvarpsfréttir á dönsku lagðar niður fram til kosninga

Kosningar til grænlenska þingsins fara fram ellefta mars næstkomandi og segja starfsmennirnir að ekki verði hægt að gera kosningabaráttunni nægilega góð skil við núverandi vinnuaðstæður. Hópur starfsmanna hafi farið á fund stjórnenda ríkisútvarpsins og borið það undir þá að leggja niður útvarpsfréttir á dönsku og grænlensku fram til kosninga svo hægt verði að einbeita sér að fréttaskrifum á vefmiðlinum knr.gl og kvöldfréttum í sjónvarpi.

Stjórnendur hafi ekki bænheyrt starfsfólkið en ákváðu að ekki yrðu sendar út útvarpsfréttir á dönsku fram til kosninga til að hlífa fréttamönnum við þýðingar. Þetta segir starfsfólkið munu skapa sundrungu í starfsmannahópnum og aðeins bæta við þegar mikið vinnuálag grænlenskumælandi fréttamanna.

Ekki forsvaranlegt að fjalla um kosningar við aðstæðurnar

„Þess vegna finnum við okkur nauðbeygð til að leggja niður störf. Við erum fullkomlega meðvituð um að verkfall þetta komi á versta hugsanlega tímapunkti. Það eru þingkosningar ellefta mars og sveitarstjórnarkosningar fyrsta apríl og sem ríkisútvarp berum við skyldu til að fjalla um það,“ segir í tilkynningu starfsfólksins.

Það er ekkert sem við viljum frekar en að fjalla um kosningarnar. En það þarf að vera forsvaranlegt og það er það einfaldlega ekki á þessum tímapunkti,“ segir starfsfólkið.

Fréttamennirnir sneru aftur til starfa sinna síðdegis í dag en stjórnendur hafa gefið starfsmönnunum sextán uppsagnarviðvörun þar sem vinnustöðvunin brýtur í bága við kjarasamning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×