Hlutfall virðis á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði (CAPE) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI15 stendur nú í 28,2 samanborið við sögulegt meðaltal upp á 21. Á síðustu mánuðum hefur leitni hlutfallsins verið til lækkunar en frá árinu 2022 hefur þróun þess einkum einkennst af sveiflum – líkt og neðangreind mynd sýnir. Á sama tíma hefur ávöxtunarkrafa fimm ára ríkisskuldabréfa farið lækkandi. VH-hlutfallið, hefðbundið hlutfall virðis hlutabréfa Úrvalsvísitölunnar á móti tólf mánaða sögulegum hagnaði, er á svipuðum slóðum og CAPE, eða um 28,6, sem er umtalsvert hærra en sögulegt meðaltal þess (16,9).
Í stuttu máli má skilgreina CAPE sem mælikvarða á hversu mörg ár það tæki hagnað fyrirtækjanna í vísitölunni að greiða til baka upphaflega fjárfestingu. Hátt gildi CAPE (vel yfir sögulegu meðaltali, 21) getur bent til yfirverðlagningar á hlutabréfum, en einnig má líta á það sem vísbendingu um væntingar fjárfesta um verulegan vöxt hagnaðar fram í tímann.

Ný samsetning OMXI15, sem tók gildi í janúar, sýnir að Nasdaq bætti við tveimur nýjum félögum í Úrvalsvísitöluna, sem bæði sérhæfa sig í þróun og rekstri fasteigna: Kaldalón og Heimar. Þar að auki mætti nefna sértæka meðferð á hlutum JBT Marel, en í kjölfar sameiningar John Bean Technologies og Marel í janúar, inniheldur OMXI15 eingöngu þá hluti félagsins sem eru skráðir í Verðbréfamiðstöð Íslands. Um þetta fjallaði Finnbogi Rafn Jónsson, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Nasdaq Iceland, skilmerkilega í nýlegri grein.
Ólíkt leitni CAPE fyrir Úrvalsvísitöluna til lækkunar, hefur CAPE fyrir hlutabréfavísitöluna S&P 500 haldið áfram að hækka og stendur nú í um það bil 38, samkvæmt opinberum gögnum bandaríska hagfræðingsins Robert J. Shiller. Þess skal þó getið að gildi beggja hlutfalla gefa til kynna að áhættuálag í arðsemiskröfu til hlutabréfa sé áfram neikvætt enda þegar horft er til þess að ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisskuldabréfa hefur haldist í kringum sjö prósent undanfarna tólf mánuði.

Þar að auki hefur verðbólguálag sveiflast í kringum 3,9 prósent, og er hátt samanborið við sögulegt meðaltal, 3,5 prósent, síðan árið 1998. Nýbirt gildi vísitölu neysluverðs síðastliðinn fimmtudag sýnir að þó ársverðbólga sé enn þrálát eða um 4,2 prósent, er um að ræða lægsta gildi hennar síðan í febrúar 2021. Jafnframt sýndu þjóðhagsreikningar sem birtir voru síðasta föstudag, að framleiðsluspenna er þónokkru meiri en nýjustu opinberu spár gerðu ráð fyrir. Í Bandaríkjunum er verðbólga við 3 prósent, og ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa hefur verið í kringum 4 prósent, eftir að hafa hlaupið upp undir 4,5 prósent um miðjan janúar.
Næstkomandi 19. mars birtir Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands næstu vaxtaákvörðun sína.
Höfundur er hagfræðingur.
Nánar um CAPE:
Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.
Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.