Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég er að vakna milli klukkan korter yfir sex og hálf sjö. Ég varð A týpa sumarið 2019 þegar sonur minn fæddist en fram að því var ég mikil B týpa. Ég er mjög stolt af þessum viðsnúningi og kann betur við mig sem A týpu.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég snúsa alltaf einu sinni og rýk svo fram og kveiki á kaffivélinni sem ég elska, fyrsti kaffibolli dagsins er bestur. Planið var alltaf að rjúka beint á hlaupabrettið eftir eitt snús en ég keypti það dýrum dómi fyrir nokkrum árum en það plan hefur alfarið vikið fyrir rjúkandi kaffibolla og yfirferð dagatalsins og þjónar því hlaupabrettið hlutverki fatahengis.
Næst tekur við sturta og að henni lokinni er einkasonurinn vakinn með tilheyrandi knúsi og spjalli. Við tökum okkur góðan tíma í að spjalla og hafa okkur til áður en við skutlumst í leikskóla og vinnu. Fegurðin í því nærir mig vel út daginn.“
Hvenær og hvers vegna fékkstu algjört hláturskast síðast?
„Ég hlæ mjög mikið og finnst það ofboðslega gaman. Ég er ekki viss um að það sé mér í hag að opinbera síðasta hláturskast, það kynni að vega illa að mannorði mínu.
En ég hló hátt og mikið og það tók verulega á grindarbotninn. Ég bý svo vel að þekkja eingöngu skemmtilegt fólk og gladdi einstaka hárgreiðslukonan mín mig verulega í vikunni með góðum sögum af sjálfri sér.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnin sem ég vinn í eru mjög fjölbreytt og satt að segja lýkur þeim ekki þannig. ÖBÍ eru regnhlífasamtök 40 fjölbreyttra aðildarfélaga og felast verkefni ÖBÍ í réttinda- og hagsmunabaráttu fatlaðs fólks. Vinnan felst mikið í aðhaldi og þrýstingi gagnvart stjórnvöldum, fræðslu og ráðgjöf sem á virkilega vel við mig.
Í vikunni vorum við með mannréttindamorgun í Mannréttindahúsinu okkar ásamt Un Women um konur, frið og öryggi í breyttum heimi og fengum til okkar í panel embættis- og baráttufólk sem sögðu frá sínu starfi og upplifun hvað þetta varðar og mikilvægi inngildingar, samstöðu og samtals. Það var virkilega vel heppnað og gaman.”
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég gerði lítið hefði ég ekki Outlook og bækurnar mínar sem ég skrifa allt í. Ég er mjög skipulögð í eðli mínu og þrífst illa í kaós, nema það sé skipulagt. Ég er í raun háð Outlook en þykist vera að bæta mig í Asana, mér finnst það bara svo leiðinlegt. Ég er mikið á fundum hingað og þangað og þá reynir á gott skipulag.
Ég get ekki farið að sofa nema ég sé búin að ákveða í hvaða fötum við mæðgin munum klæðumst þann daginn, það er kannski ekki skipulag heldur einhverskonar rugl en þannig hefur það alla tíð verið og óþarfi að hætta því núna.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég ætla alltaf að vera sofnuð fyrir klukkan 23, en það næst alltof sjaldan. Ég er elska að hlusta á hlaðvörp og sögur og á stundum erfitt með að hætta að hlusta og fara að sofa. Bölvaðir baugarnir eru einmitt tilkomnir vegna þessa agaleysis. En svo bæti ég mér þetta stundum upp og sofna með stráknum mínum og það er fátt betra.“