Upp­gjörið: Grinda­vík-Njarðvík 122-115 | Há­spenna lífs­hætta í ótrú­legum sigri Grind­víkinga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jeremy Pargo var með 22 stig og 14 stoðsendingar í sigri Grindavíkur í kvöld.
Jeremy Pargo var með 22 stig og 14 stoðsendingar í sigri Grindavíkur í kvöld. Vísir/Jón Gautur

Grindvíkingar unnu Njarðvíkinga eftir framlengdan og stórskemmtilegan leik í Smáranum í kvöld í Bónus deild karla í körfubolta. Framlengja þurfti leikinn eftir mikla dramatík á lokasekúndum venjulegs leiktíma.

Leikurinn byrjaði fjörlega og var mikið skorað í upphafi. Bæði lið voru að setja niður þriggja stiga skot en þann áhugaverðasta setti Grindvíkingurinn DeAndre Kane þegar hann ætlaði að senda á liðsfélaga sinn Daniel Mortensen við hringinn en sendingin fór beint ofan í körfuna.

Bæði lið voru frekar mistæk varnarlega, Grindvíkingar töpuðu boltanum stundum klaufalega en sýndu sjálfir ágætis varnarleik á köflum en duttu inn á milli niður á lágt plan varnarlega. Njarðvíkingar hittu vel fyrir utan þriggja stiga línuna og Grindvíkingar áttu sína spretti þar sömuleiðis.

Staðan í hálfleik var 62-55 fyrir heimamenn.

Í þriðja leikhluta byrjuðu gestirnir betur og náðu forystunni. Heimamenn treystu stundum of mikið á einstaklingsgæðin í liðinu sem vissulega eru mjög mikil en Njarðvík náði undirtökunum. 

Undir lok þriðja leikhlutans hitnaði heldur betur í kolunum þegar Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var sendur upp í stúku eftir að hafa fengið tvær tæknivillur á örskömmum tíma. Njarðvíkingar létu það hins vegar ekki á sig fá og mættu af miklum krafti í fjórða leikhlutann. Þeir komust í 99-92 og virtust vera að ganga frá leiknum. Þegar hundrað sekúndur voru eftir á klukkunni var staðan 111-102 fyrir Njarðvík og þeir með leikinn algjörlega í hendi sér.

Þá hófst magnaður lokasprettur Grindavíkur. DeAndre Kane og Jeremy Pargo settu tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili og Pargo minnkaði síðan muninn í eitt stig þegar 29 sekúndur voru eftir. Njarðvík klikkaði á skoti þegar átta sekúndur voru eftir, Grindavík geystist fram og Bragi Guðmundsson náði í tvö vítaskot þegar 0,4 sekúndur voru eftir á klukkunni. Hann setti hins vegar aðeins fyrra vítið niður, jafnaði þá í 111-111 og framlengja þurfti leikinn.

Í framlengingunni voru heimamenn sterkari. Njarðvík skoraði ekki stig eftir að hafa komist í 115-113 en Grindavík gerði síðustu níu stigin í leiknum. Pargo lokaði leiknum endanlega með körfu þegar 24 sekúndur voru eftir og Grindvíkingar í Smáranum fögnuðu gríðarlega.

Lokatölur 122-115 í spennutrylli en sigurinn er afar mikilvægur fyrir Grindvíkinga í baráttunni um heimavallarétt í úrslitakeppninni.

Atvik leiksins

Bragi Guðmundsson tók varnarfrákast þegar fimm sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma í stöðunni 111-110 fyrir Njarðvík. Hann keyrði upp allan völlinn, fór á hringinn og fékk villu en Njarðvíkingar vildu fá ruðning. 

Eftir mikla reikistefnu fór Bragi á vítalínuna, setti fyrra vítið niður og jafnaði og gat síðan tryggt Grindavík sigurinn með seinna vítinu. Boltinn skrúfaðist hins vegar upp úr hringnum og því varð að framlengja.

Stjörnur og skúrkar

DeAndre Kane átti góðan leik fyrir Grindavík eins og oftast. Hann skoraði 23 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Jeremy Pargo hitti illa en var betri en enginn undir lokin. Hann skoraði 22 stig og gaf 14 stoðsendingar þar að auki.

Ólafur Ólafsson kom inn með frábært framlag en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Ungu strákarnir Bragi Guðmundsson og Arnór Tristan Helgason komu sömuleiðis sterkir inn og lögðu svo sannarlega sín lóð á vogarskálarnar.

Í liði Njarðvíkur var Dwayne Lautier mjög góður sóknarlega og Khalil Shabazz sýndi að hann getur sótt stig þegar hann vill. Dominykas Milka var sömuleiðis afar góður í teignum með 25 stig og 10 fráköst.

Dómararnir

Því miður tókst dómurum leiksins ekki nógu vel upp í kvöld. Á köflum tók tríóið leikinn nánast yfir og misstu tök á aðstæðum. 

Atvikið þegar Rúnar Ingi var rekinn upp í stúku var áhugavert því hann hafði mikið til síns máls að biðja um villu í sókn Njarðvíkinga þar á undan og spurning hvort Kristinn Óskarsson dómari hefði ekki þurft að sýna aðeins meiri þolinmæði á því augnabliki. 

Það var mikill hasar oft á tíðum og dómararnir þurftu að láta til sín taka en margar ákvarðanir þeirra í kvöld voru umdeildar.

Stemmning og umgjörð

Það var virkilega góð stemmning í Smáranum í kvöld. Eftir því sem hasarinn í leiknum jókst þá varð fjörið meira á pöllunum og óhætt að segja að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn í kvöld. Það var úrslitakeppnisbragur yfir leiknum og vonandi fáum við fleiri svona spennuleiki nú á vordögum.

Viðtöl

„Sem bróðir er ég mjög stoltur af hans framlagi“

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var gríðarlega ánægður með karakterinn sem hans menn sýndu í frábærum sigri á Njarðvík í kvöld. Njarðvík leiddi með níu stigum þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en Grindavík kom til baka á ótrúlegan hátt undir lokin.

„Ég held það hafi verið innan við tvær mínútur eftir, það fór um mann og allt það og Njarðvíkingarnir eru bara með mjög gott lið,“ sagði Jóhann við Vísi eftir leik.

„Ég er ofboðslega ánægður og stoltur af liðinu mínu hvernig við sýndum karakter og komumst í gegnum þetta. Við þurftum að komast í gegnum alls konar mótlæti í þessu og náðum að kreista þetta út. Við sýndum náttúrulega gæði í restina og ég er mjög sáttur.“

Jóhann Þór Ólafsson er þjálfari Grindavíkur.vísir/Anton

Hann nefndi sérstaklega framlag ungu heimastrákanna, Braga Guðmundssonar og Arnórs Tristans Helgasonar, í leiknum en báðir gengu þeir til liðs við Grindavík eftir áramótin eftir dvöl erlendis.

„Líka það sem við erum að fá út úr þessu, Arnór og Braga að fá smjörþefinn af þessu. Stóðu sig mjög vel á báðum endum í vörn og sókn. Þetta var geggjað.“

„Þá getum við leyft okkur að dreyma“

Grindavík var í basli varnarlega en Jóhann sagði sigurinn vera það sem skipti máli.

„Bragi kemur sér í þessa stöðu þarna í lokin og hvernig hann brotnaði ekki, ég var mjög ánægður að sjá það. Þetta var svolítið fram og til baka og mikil gæði í þessu. Mér finnst við vera í vandræðum varnarlega en mögulega bara og Dwayne Lautier er mjög góður að koma sér á körfuna, Mikla að rúlla á hringinn. Það er erfitt að verjast þeim. Geggjaður sigur og það er það sem stendur upp úr.“

Jóhann vildi lítið tala um hvað þessi sigur myndi færa Grindavík í framhaldinu og sagði liðið aðeins einbeita sér að næsta leik. Hann hrósaði Ólafi bróður sínum sérstaklega í lok viðtalsins.

„Eins og ég sagði við þig fyrir leik þá erum við bara að fara að einbeita okkur að spila við Val á fimmtudaginn. Þetta eru bara gamlar klisjur, reyna að vera betri í því sem við erum að gera.“ 

„Það eru jákvæðir punktar. Ólafur kemur inn, hann er ekki á þeim stað sem hann vill vera. Mikil áföll og alls konar hlutir sem við höfum þurft að díla við og sem bróðir er ég mjög stoltur af hans framlagi. Ef þetta er eitthvað sem koma skal þá getum við leyft okkur að dreyma.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira