KA vann úrslitaleikinn 3-0 og það var aðeins í þriðju hrinunni sem að Þróttarar bitu frá sér af ráði. KA vann fyrstu tvær hrinurnar 25-21 og 25-16 en mikil spenna var svo í þriðju hrinunni sem KA vann þó að lokum 25-23.
„Allt sem við ætluðum að gera gekk upp. Alveg sama hvað. Við lögðum upp með að þrýsta á þá í uppgjöfum, hittum vel, og eins að brosa og hafa gaman. Við vissum að það færi í taugarnar á þeim. Það virkaði allt,“ sagði Alexander Arnar Þórisson, leikmaður KA, í samtali við RÚV eftir leik og kvaðst hafa búist við að leikurinn spilaðist eins og hann fór.
Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill karlaliðs KA síðan árið 2019 en Hamar hafði unnið titilinn síðustu fjögur ár í röð.
KA-menn þurftu að hafa mun meira fyrir sigri sínum í undanúrslitunum á fimmtudagskvöld þegar þeir unnu Aftureldingu 3-2 en Þróttarar slógu þá út HK, einnig með 3-2 sigri.
KA getur unnið tvöfalt í dag því í bikarúrslitaleik kvenna mætast KA og HK.