Bandaríkjaforseti hefur ítrekað sagt að hann vilji að Grænland verði hluti af Bandaríkjunum. Síðast gerði hann það í stefnuræðu sinni í bandaríska þinginu í síðustu viku þegar hann sagði að Bandaríkin kæmust yfir Grænland með „einum eða öðrum hætti“.
Framferði forsetans fellur illa í kramið hjá Múte B. Egede, formanni grænlensku landsstjórnarinnar. Hann segir bandaríska forsetann óútreiknanlegan á hátt sem valdi fólki óöryggi. Heimsskipan síðustu áttatíu ára virðist á hverfanda hveli.
„Við verðskuldum að komið sé fram við okkur af virðingu og ég tel ekki að að bandaríski forsetinn hafi gert það frá því að hann tók við embætti,“ segir Egede í viðtali við danska ríkisútvarpið sem lýsir ummælum grænlenska leiðtogans sem þeim mest afgerandi um Bandaríkjaforseta til þessa.
Lítilsvirðingin í garð Grænlendinga hafi jafnvel þveröfug áhrif á vilja þeirra til vinna með Bandaríkjunum.
„Ég held að þeir hlutir sem Bandaríkjaforseti hefur gert nýlega láti okkur ekki vilja vera eins náin og við gætum hafa viljað áður,“ segir Egede.
Skoðanakannanir hafa sýnt að allt að 85 prósent Grænlendinga vilji ekki tilheyra Bandaríkjunum.
Flokkarnir þurfi að standa saman í öldurótinu
Sex flokkar eru í framboði í kosningunum á morgun. Allir nema borgaralegi flokkurinn Atassut, sem vill efla tengslin við Danmörku, eru fylgjandi sjálfstæði Grænlands. Aðeins einn þeirra talar nú fyrir nánara samstarfi við Bandaríkin, Naleraq. Sá flokkur var til skamms tíma í stjórn með Inuit Ataqatigiit, flokki Egede.
Egede segist ekki útiloka samstarf við neinn flokk eftir kosningarnar á morgun. Hann segist vilja sjá breiða og sterka samsteypustjórn sem geti lagt drög að því hvernig Grænlendingar geti öðlast sjálfstæði. Óljóst er hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði gæti farið fram.
„Ég segi vanalega að við verðum að vinna að því á hverjum degi að komast nær því. Ég vil ekki nefna ár en með allt það sem er í gangi tel ég að flokkunum beri skylda til að standa saman og gera öfluga áætlun um sameiginlega sýn þeirra [um sjálfstæði],“ segir formaðurinn.