Björgunarstarf hefur staðið yfir úti fyrir Hull á Englandi síðan um klukkan tíu í morgun. Áreksturinn átti sér stað um sextán kílómetra undan ströndum Austur-Jórvíkurskíris. Portúgalska flutningaskipið Solong sigldi á bandaríska efna- og olíuflutningaskipið MV Stena Immaculate sem lá við akkeri en breska veðurstofan hafði varað við mikilli þoku og erfiðum siglingaskilyrðum í morgun.
Natríumblásýrusalt er baneitrað duft sem er meðal annars notað við vinnslu málmblendis og við gerð litarefnis. Prófessor í sjávarlíffræði sem breska ríkisútvarpið ræddi við segir natríumblásýrusalt leysast auðveldlega upp í vatni og að það geti banvænt sjávardýrum.
Eins og fram kom fyrr í dag kom gat á tank með þotueldsneyti og við það kviknað eldur um borðþ Nokkrar sprengingar hafa orðið og það þotueldsneyti sem ekki er fuðrað upp lekur út í Norðursjó. Því er ljóst að mikið umhverfisslys er í uppsiglingu.
Öllum áhafnarmönnum Stena hefur verið bjargað og hlúð er nú að þeim á föstu landi en enn er eins fjórtán áhafnarmanna Solong leitað. Breska ríkisútvarpið ræddi við eiganda skipsins, Ernst Russ.
„Þrettán fjórtán áhafnarmeðlima hefur verið komið óhultum á fast land. Leit að þeim sem enn er týndur stendur yfir,“ er haft eftir honum.